Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Óli Stefán gluggar í kokkabók Klopp
Laugardagur 10. september 2016 kl. 07:00

Óli Stefán gluggar í kokkabók Klopp

- Nánast allt gengið upp hjá Grindvíkingum sem leika í efstu deild að ári

Eftir fjögurra ára útlegð í 1. deild náðu Grindvíkingar loks að komast í röð þeirra bestu í fótboltanum með 1-0 sigri á Fjarðabyggð á laugardag. Óli Stefán Flóventsson, einn dáðasti sonur Grindavíkur tók við liðinu síðasta haust og fór með það beinustu leið upp um deild. Liðið er að mestu skipað uppöldum heimamönnum sem ýmist hafa haldið tryggð við liðið eða eru komnir aftur á heimaslóðir.

Ef afrekaskrá Grindvíkinga á þessu tímabili er skoðuð þá rekur maður augun fyrst í markatöluna. Markahlutfallið er 31 mark í plús hjá liðinu sem hefur skorað allra liða mest í sumar, eða 46 talsins. Þeir gulu og bláu eru taplausir á heimavelli þar sem þeir hafa unnið sjö leiki og gert þrjú jafntefli. Liðið hefur tapað tveimur leikjum í allt sumar en framundan eru tveir erfiðir leikir á Akureyri gegn toppliði KA og Þórsurum en í lokaumferðinni mæta Framarar til Grindavíkur.

Þjálfarinn Óli Stefán á aðeins þrjár vikur eftir af samningi sínum en hann vonast til þess að halda áfram með liðið. Þó er ekkert byrjað að ræða þau mál að hans sögn.
Óli Stefán kom til starfa með fimm ára áætlun. Hann tók við Grindavíkurliðinu síðasta haust og hugsaði sér að koma þeim upp um deild á næstu tveimur eða þremur árum. Á fimm ára planinu er svo að koma Grindvíkingum í eitt af efstu sex sætunum í úrvalsdeild. „Það er á áætlun og gaman að ná því eins fljótt og hægt var,“ segir Óli hógvær en hann telur tilkomu  Milan Stefan Jankovic í þjálfarateymið afar mikilvæga. Þeirra leikstílar ná vel saman enda lék Óli undir stjórn Janko í mörg ár og þekkjast þeir vel.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Landsbyggðar stemning í klefanum

Grindvíkingar misstu fyrirliðann Óskar Pétursson fyrir tímabilið eins sem hinn efnilegi Daníel Leó Grétarsson hélt í atvinnumennsku. Heimamennirnir Alexander Veigar og Gunnar Þorsteinsson komu þó heim fyrir tímabilið og hafa verið lykilmenn í liðinu í sumar, án þess að lasta aðra leikmenn. „Þeir hafa báðir komið mér á óvart. Þannig er Alex mun betri varnarmaður en ég hélt og Gunnar er miklu betri sóknarmaður en ég hélt að hann væri. Þannig að þeirra „veikleikar“ eru mun sterkari en maður þorði að vona,“ segir Óli og hlær við. Ómögulegt væri að telja upp alla þá leikmenn sem hafa blómstrað í sumar í svo stuttri grein en inn á milli leynast hógværar hetjur. „Björn Bryde hefur verið stórkostlegur í sumar en menn hafa varla tekið eftir honum. Hann er að mínu viti einn af albestu hafsentum landsins. Hann er einn af þessum leikmönnum sem vigta mjög mikið í þessu þó svo að þeir fái ekki kredit fyrir,“ segir Óli Stefán. Lykilatriði í árangri sem þessum er andrúmsloft og samheldni í leikmannahópnum. „Klefinn hefur verið alveg einstakur. Oft er talað um landsbyggðar stemningu í klefanum og hún er sterk í Grindavík.“

Sækja talsvert í þýsku fræðin

Talsvert hefur verið rætt um markaskorun Grindvíkinga í sumar og hvað veldur, enda eru Grindvíkingar nokkuð duglegir að deila mörkum sín á milli en 13 leikmenn hafa komist á blað hjá þeim í sumar.

„Hugmyndafræði Janko gengur út á það að halda bolta innan liðsins. Svo kem ég með mikla ákefð bæði í sóknar- og varnarleik. Við erum oft að vinna boltann framarlega og þá er andstæðingurinn úr jafnvægi.“ Þar sækir Óli dálítið í smiðju þýska þjálfarans Jörgen Klopp sem þekktur er fyrir að láta lið sín pressa hátt á vellinum. „Við vinnum ofboðslega mikið með það og köllum það gagnpressu. Ég er mikill aðdáandi Klopp og einnig þjálfara Leverkusen þannig að ég fylgist mikið með þýska boltanum og innleiði til okkar, hef meira gaman af honum en þeim enska,“ enda er hann gallharður aðdáandi þýska liðsins Dortmund.

Fóru á Ljósanótt í Grindavíkurgöllunum

Grindvíkingar gerðu sér glaðan dag eftir leik og hentu í gamaldags partý í gula húsinu. Þar dvöldu þeir fram að miðnætti eftir leikinn gegn Fjarðabyggð sem tryggði sæti í efstu deild. „Eftir það fóru menn að týnast á Ljósanótt held ég. Sumir hverjir í Grindavíkurgöllum, en þeir skiluðu sér allir til baka þannig að það hefur bara gengið vel,“ segir þjálfarinn léttur.

Hér skála menn í Pepsi enda afar viðeigandi. Þjálfararnir Janko og Óli Stefán virðast ná einstaklega vel saman.