Ólafur Örn vill burt frá Brann
Grindvíkingurinn Ólafur Örn Bjarnason, sem er á mála hjá norska liðinu Brann, er á leið burt frá liðinu, en fjölmiðlar í Noregi hafa eftir honum að hann sé ósáttur við að vera ekki fastamaður í byrjunarliðinu.
Ólafur hefur leikið með Brann frá árinu 2004, en fyrir það lék hann allan sinn feril hjá Grindavík utan áranna 1998 til 2000 þegar hann lék með Malmö í Svíþjóð.
Hann skrifaði undir nýjan samning við Brann í fyrra en sá samningur rennur út um áramót. Ekki er ljóst hvað tekur við, en fjölmiðlar hérlendis velta vöngum yfir því hvort hann sé á heimleið. Ekki náðist í leikmanninn þar sem hann er í fríi.
Heimildir Víkurfrétta herma þó að hann hafi ekki enn tekið ákvörðun um að snúa heim.