Ólafur Örn framlengir hjá Brann
Ólafur Örn Bjarnason er í þann veginn að framlengja enn samning sinn við norska knattspyrnufélagið Brann en hann er nú að ljúka sínu sjötta tímabili í herbúðum þess. Frá þessu er greint á vef Morgunblaðsins. Um næstu helgi jafnar hann væntanlega leikjamet hjá Brann, þegar hann spilar sinn 138. deildaleik, en aðeins einn erlendur leikmaður hefur áður náð þeim leikjafjölda með félaginu frá Bergen. Neil McLeod spilaði 138 leiki með Brann á árunum 1970-1980.
Ólafur er 34 ára gamall og lék áður allan ferilinn með Grindavík, nema hvað hann spilaði með Malmö í Svíþjóð í tvö ár, 1998-1999. Hann gekk til liðs við Brann í ársbyrjun 2004. Ólafur hefur leikið 27 landsleiki fyrir Ísland en ákvað fyrir tveimur árum að gefa ekki oftar kost á sér í landsliðið og einbeita sér að sínu félagsliði.
www.mbl.is