Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Ólafur Örn bikarmeistari í Noregi
Mánudagur 8. nóvember 2004 kl. 14:59

Ólafur Örn bikarmeistari í Noregi

Ólafur Örn Bjarnason, knattspyrnukappi frá Grindavík, varð um helgina bikarmeistari í Noregi með liði sínu Brann frá Bergen.

Brann bar sigurorð af Lyn í úrslitaleik, 4-1, þar sem Ólafur átti góðan leik og lagði m.a. upp eitt markanna,
Brann tók fljótlega stjórnina í leiknum í gær og kom fyrsta markið á 4. mínútu, en Ólafur lagði markið upp með skalla. Staðan var orðin 4-1 áður en flautað var til hálfleiks og var eftir það ekki spurning hvernig leikurinn færi.

Ólafur sagði í samtali við Víkurfréttir að tilfinningin hafi verið góð þar sem hann var þar að vinna sinn fyrsta stóra titil. „Ég held að fólk heima geri sér ekki grein fyrir því hvað þetta er stórt mál hérna. Það voru tuttuguþúsund stuðningsmenn frá okkur á vellinum og við hefðum örugglega getað selt þrjátíuþúsund miða ef við hefðum mátt.“

Ólafur er á sínu fyrsta ári hjá Brann og hefur stimplað sig rækilega inn og er einn af mikilvægustu mönnum liðsins.  Hann á tvö ár eftir af samningnum við liðið og sagði stemmninguna vera góða í Bergen. „Þetta er allt miklu stærra en heima og er mikill áhugi og uppgangur í bænum.  Ég vissi að þetta yrðu viðbrigði en datt ekki í hug að þetta væri svona stórt í sniðum.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024