Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þriðjudagur 26. nóvember 2002 kl. 09:14

Ólafur Ingason „hreinsaði” á hraðskákmóti

Mánudaginn 11. nóvember var haldið hraðskákmót í Framsóknarhúsinu Hafnargötu 62 Ólafur G. Ingason lék frábæra skák á mótinu og sigraði í öllum sínum níu leikjum og stóð uppi sem sigurvegari. Ólafur var í miklum ham og „hreinsaði” eins og sagt er á skákmáli. Úrslit voru eftirfarandi:
1. Ólafur G. Ingason 9 vinningar af 9 mögulegum
2. Arnbjörn Barbato 7,5 vinningar
3. Einar S. Guðmundsson 6 vinningar
4. Júlíus F. Guðmundsson 5 vinn. og 15,5 stig
5. Páll Árnason 5 vinningar og 15 stig

Föstudaginn 15. hófst svo Skákþing Reykjanesbæjar þar sem teflt var um titilinn Skákmeistari Reykjanesbæjar. Skákstjóri var Sigurður H. Jónsson og leysti hann það starf af stakri prýði. Tefldar voru fjórar umferðir á föstudeginum og fimm á laugardeginum og var umhugsunartími 25 mínútur á skák. Úrslit urðu eftirfarandi:
1-3. Agnar Olsen 7 vinningar af 9 mögulegum
1-3. Ólafur G. Ingason 7 vinningar
1-3. Patrick Svansson 7 vinningar
4. Arnbjörn Barbato 6 vinningar
5. Guðmundur Sigurjónsson 5 vinningar
Ákveðið var fyrir mótið að yrðu einhverjir jafnir í efstu sætum að loknum 9 umferðum myndu þeir tefla innbyrðis tvær 15 mínútna skákir með skiptum litum. Þrír efstu menn munu því tefla innbyrðis um hver þeirra verður Skákmeistari Reykjanesbæjar. Ekki er búið að ákveða hvenær þessar skákir fara fram en það verður fljótlega. Fáist enn ekki úrslit eftir þessar skákir verða tefldar tvær sjö mínútna skákir. Verði enn jafnt verður tíminn styttur í 5 mínútur og telfdur verður bráðabani þar til úrslit fást.
Mánudaginn 2. desember kl. 20 verður haldið Hraðskákmeistaramót Reykjanesbæjar þar sem tefldar verða 5 mínútna skákir. Vægt mótsgjald.
Björgvin Jónsson, alþjóðlegur meistari í skák, sem íbúar á Suðurnesjum ættu að kannast vel við kemur í heimsókn til okkar í Framsóknarhúsið fimmtudaginn 28. nóvember kl. 20. Mun hann halda fyrirlestur um skákbyrjanir en hann er í fremstu röð skákmanna landsins hvað þær varðar. Allir skákáhugamenn eru hvattir til að mæta á fyrirlesturinn og einnig að láta sjá sig á mánudagskvöldum kl. 20 í Framsóknarhúsinu.
Á laugardögum kl. 13 er Skákfélagið með skákkennslu fyrir yngri kynslóðina. Heldur lítil þátttaka hefur verið hingað til en viljum við biðja foreldra um að hvetja börn sín til að mæta og taka þátt í þessu skemmtilega og ódýra sporti með okkur, þar sem þetta er börnunum algjörlega að kostnaðarlausu.
Stjórn Skákfélags Reykjanesbæjar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024