Ójafn toppslagur þegar Keflvíkingar sigruðu Grindvíkinga
Sitja einir ósigraðir á toppi Domino’s-deildar karla
Það ríkti mikil spenna fyrir Suðurnesjaslag Keflavíkur og Grindavíkur í Blue-höllinni í kvöld en bæði lið hafa farið vel af stað í Domino’s-deild karla og höfðu unnið alla sína leiki fyrir viðureign kvöldsins.
Það voru Keflvíkingar sem fóru betur af stað og skoruðu þeir fyrstu stig leiksins. Þeir hleyptu Grindvíkingum aldrei upp að hlið sér og uppskáru að lokum 27 stiga sigur, 94:67.
Grindvíkingar léku án Bandaríkjamannsins Eric Wise sem meiddist í síðasta leik gegn Haukum og það hafði augljós áhrif á frammistöðu liðsins, þeir eltu allan leikinn og um miðjan annan leikhluta komu þeir muninum niður í tvö stig, 32:30, en nær komust þeir ekki. Það voru heimamenn sem fóru með fimm stiga forystu inn í seinni hálfleikinn, 43:38.
Joonas Jarvelainen var atkvæðamestur Grindvíkinga og gerði 21 stig í en snemma í þriðja leikhluta fékk hann dæmda á sig óíþróttamannslega villu þegar hann braut á Herði Axel Vilhjálmssyni. Um miðjan leikhlutann í stöðunni 58:50 fékk Jarvelainen svo dæmda á sig tæknivillu og var útilokaður frá leiknum. Við það að missa þennan máttarstólpa af velli brotnaði leikur þeirra gulklæddu og eftirleikur Keflvíkinga varð frekar auðveldur. Lokatölur 94:67 og sanngjarn sigur Keflvíkinga í höfn.
Dominykas Milka var traustur í liði Keflvíkinga með 23 stig, Calvin Burks jr. var með tuttugu stig og Deane Williams með nítján, þá átti Hörður Axel Vilhjálmsson ellefu stoðsendingar í leiknum.
Í liði Grindvíkinga var Joonas Jarvelainen með 21 stig, Ólafur Ólafsson með átján og Kristinn Pálsson tíu.
Keflavík-Grindavík 94-67 (20-16, 23-22, 25-13, 26-16)
Keflavík: Dominykas Milka 23/12 fráköst, Calvin Burks Jr. 20/7 fráköst, Deane Williams 19/8 fráköst, Valur Orri Valsson 8/4 fráköst/5 stoðsendingar, Ágúst Orrason 8, Þröstur Leó Jóhannsson 8/6 fráköst, Arnór Sveinsson 6, Hörður Axel Vilhjálmsson 2/11 stoðsendingar, Reggie Dupree 0, Davíð Alexander H. Magnússon 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Arnór Daði Jónsson 0.
Grindavík: Joonas Jarvelainen 21/4 fráköst, Ólafur Ólafsson 18/6 fráköst, Kristinn Pálsson 10/4 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 8/5 fráköst, Dagur Kár Jónsson 7, Johann Arni Olafsson 3/4 fráköst, Þorleifur Ólafsson 0, Magnús Engill Valgeirsson 0, Hafliði Ottó Róbertsson 0, Kristófer Breki Gylfason 0/5 fráköst, Jens Valgeir Óskarsson 0, Bragi Guðmundsson 0.
Körfubolti leikinn í kyrrþey þegar Keflavík jarðaði GrindavíkSú sérstaka uppákoma varð á leik Keflavíkur og Grindavíkur í kvöld að dómari leiksins, Sigmundur Már Herbertsson, bannaði tónlistarflutning í hljóðkerfi hússins á meðan á leik stóð. Því fór leikurinn fram í grafarþögn. |
Hilmar Bragi Bárðarson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og tók meðfylgjandi myndir sem má sjá hér neðan við fréttina.