Óheiðarlegir golfarar í Grindavík
Undanfarin ár hefur borið á því að einstaklingar, sem ekki eru klúbbfélagar, hafa verið að læða sér á golfvöllinn í Grindavík án þess að greiða vallargjald.
„Það er með öllu ólíðandi að menn skuli vera svo óprúttnir að leika völlinn án greiðslu. Nú hefur stjórn Golfklúbbs Grindavíkur ákveðið að taka hart á þessum málum og þeir sem verða uppvísir að slíku fá sendan gíróseðil heim til greiðslu á vallargjaldinu,“ segir á heimasíðu Golfklúbbs Grindavíkur.
Öll starfsemi Golklúbbs Grindavíkur byggist á ársgjöldum félaga og flatargjöldum gesta hans og er það engan veginn ásættanlegt að óheiðarlegir einstaklingar komi sér hjá því að greiða umrædd flatargjöld. Einnig hefur stjórnin ákveðið að herða eftirlit á kvöldin eftir hefðbundinn opnunartíma skála þar sem umræddir einstaklingar gera það að leik sínum að spila völlinn þegar starfsmenn eru farnir heim.
„Við viljum einnig benda klúbbfélögum á að fylgjast með þessu athæfi manna og tilkynna það í skála,“ segir á heimasíðu GG.