ÓGLEYMANLEGAR LOKASEKÚNDUR
Körfuknattleiksmenn úr Njarðvík og Keflavík sönnuðu það enn og aftur að engin boltagrein getur boðið upp á eins mikla spennu, sviptingar og æsing og körfuknattleikurinn. Ódrepandi sigurvilji Njarðvíkinga í bland við sigurvissu Keflvíkinga varð þess valdandi að Njarðvíkingum tókst að vinna upp 7 (80-87)stiga forskot á aðeins 27 sekúndum og tryggja framlengingu 88-88. Í framlengingunni var aldrei spurning hvort liðið hefði sigur því Keflvíkingar náðu sér aldrei af áfalli lokasekúndna venjulegs leiktíma og Njarðvíkingar fögnuðu 5. bikartitli félagsins á 12 árum 96-102. Leikurinn bauð upp á allt sem íþróttaviðburður getur boðið upp á, frábær tilþrif, gríðarlega spennu, ótrúlega dramatík, sársaukafull vonbrigði og fölskvalaus fagnaðarlæti.