„Of miklir töffarar til að tapa tveimur oddaleikjum“
Stuðningsmaðurinn Siggi Svans spáir í oddaleikinn
Sigurður Svansson er einn harðast stuðningsmaður Njarðvíkinga í körfuboltanum, jafnvel landsins ef út í það er farið. Hann hefur ekki náð öllum leikjunum að undanförnu þar sem hann er búsettur á Akureyri þar sem hann stundar nám. Hann er hins vegar kominn með flugmiða og mætir granítharður á leikinn í kvöld. Við fengum hann til þess að spá í spilin fyrir oddaleik KR og Njarðvíkur.
Hvernig fer leikurinn?
Að sjálfsögðu vinna mínir menn. Förum varla tvö ár í röð í oddaleik í DHL til þess að tapa, við erum bara of miklir töffarar til þess.
Hvað þurfa Njarðvíkingar að gera til þess að leggja KR á heimavelli?
Þeir þurfa að spila vörnina gríðarlega sterkt, hjálpa hvor öðrum að berja á mönnum og reyna að stoppa Craion, en það er auðvitðað ekki hægt að stoppa þennan gæja alveg. Þá er það bara stoppa alla hina í KR liðinu og leyfa Craion að skora 35 stig. Sóknarlega væri ekki verra ef allir myndu skjóta til þess að skora ekki bara skjóta til þess að skjóta.
Hvaða leikmenn munum við sjá stíga upp í þessum stóra leik?
Allir sem eru töffarar stíga upp í svona leik. Logi Gunnarsson er búin að sýna hversu mikill töffari hann er, spilar með brotið bein í höndinni og gefur ekki millimeter eftir. Svo er Maciek búin að spila frábærlega líka. Við höfum þurft að hafa Atkinson í stuði líka til þess að sækja fráköst en nú vil ég bara sjá leik þar sem allt liðið mætir tilbúið og við vinnum þennan leik saman.
Hvað finnst þér búið að standa upp úr í rimmunni til þessa?
Þetta hefur verið svoldið skrítið spiluð sería. Bæði lið voru að spila furðulega í fyrsta leiknum sem fór í tvær framlengingar. Þar áttu mínir menn bara að drullast til að taka sigur en það þýðir lítið að spá í því núna. En ég verð að segja comebackið í leik tvö það er það sem heldur okkur á floti í þessu. Þar sýnir Logi okkur öllum hvað hann getur gert þó svo að hann sé handleggsbrotinn. Svo kom smá skellur á þetta í þriðja leik sem ég bjóst ekki við. Ég hafði á tilfinningunni að leikmenn væru bara engan veginn gíraðir, létu KR-ingana komast í 8-0, en þá þurfti Frikki og Teitur að taka leikhlé. Það er skammarlegt en þeir spiluðu af krafti í fjórða leiknum í gær og vonandi taka þeir þann kraft með sér og nokkrir leikmenn stíga upp. Með þá erum við svo einfaldlega að fara í úrslit. Ég sjálfur hef þurft að gera mér það að góðu að horfa á alla þessa seríu í sjónvarpinu þar sem ég er búsettur á Akureyri í námi. Það er búið að vera ansi erfitt að geta ekki verið á leiknum og látið í sér heyra. Ég verð mættur á oddaleikinn með flugi og vil sjá alla Njarðvíkinga í stúkunni sem stuðningsmenn ekki áhorfendur, við erum sjötti og jafnvel sjöundi maðurinn og sýnum það á Föstudag. Áfram Njarðvík.