Oddur Kristjánsson til Njarðvíkur
Miðherji á leiðinni
Njarðvíkingar hafa samið við bakvörðinn Odd Rúnar Kristjánsson sem leikið hefur með ÍR í vetur í Domino's deild karla í körfubolta. Oddur sem er tvítugur KR-ingur að upplagi, hefur áður leikið á Suðurnesjum en þá með Grindvíkingum.
„Við vorum að leita af sterkum bakverði eins og flestir vita,“ segir Bjarki Már Viðarsson varaformaður körfuknattleiksdeildar UMFN. Nú er svo allt útlit fyrir að Njarðvíkingar séu að landa Bandaríkjamanni en þeir sendu Simmons heim á dögunum. „Það lítur allt út fyrir að það sé miðherji á leiðinni til okkar. Það eru nokkrir á teikniborðinu, við erum að reyna að ganga frá samningum við stóran leikmann,“ staðfestir Bjarki.