Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ó Keflavík, er betri tíð í vændum?
Fimmtudagur 30. ágúst 2007 kl. 11:55

Ó Keflavík, er betri tíð í vændum?

Gengi Keflavíkur í Landsbankadeild karla í knattspyrnu hefur valdið miklum vonbrigðum að undanförnu. Eftir sterka byrjun í Íslandsmótinu hefur leikur liðsins dalað verulega og hver leikmaðurinn á fætur öðrum hefur mátt glíma við sinn skerf af meiðslum. Þeir Ómar Jóhannsson, Branislav Milicevic og Nicolai Jörgensen verða ekki með í kvöld sökum meiðsla.

 

Keflavík mætir Fram á Laugardalsvelli í kvöld og hefst leikurinn kl. 20:00. Keflavík hefur 18 stig í 6. sæti deildarinnar en Fram hefur verið að leika vel að undanförnu og er með 12 stig í níunda og næst neðsta sætinu.

 

Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, sagði í samtali við Víkurfréttir að Nicolai þyrfti núna að fá algera hvíld því hann hefði að undanförnu verið að berjast við mikla höfuðverki milli leikja og æfinga. Höfuðverkirnir eru í kjölfar þungs höggs sem hann fékk í leiknum ytra gegn Midtjylland fyrr í sumar.

 

,,Við göngum út frá því að Guðmundur Steinarsson verði með í kvöld nema annað komi í ljós,” sagði Kristján en Guðmundur fór af velli gegn Valsmönnum í síðustu umferð með vægan heilahristing. Baldur Sigurðsson og Símun Samuelsen verða með í kvöld en þeir eiga báðir eins leiks bann í vændum fyrir spjaldasöfnun. Símun og Baldur verða hins vegar í banni þann 16. september þegar Keflavík mætir Víkingum.

 

,,Við höfum reynt að snerta á þessum punktum sem eru bæði góðir og slæmir hjá okkur og það er langt síðan við urðum hungraðir eftir sigri. Við gerum okkur grein fyrir því að meiðsl leikmanna hafa orðið gríðarleg blóðtaka fyrir okkur en við höfum verið að taka þessa leiktíð í lotum eins og önnur lið,” sagði Kristján um gengi Keflavíkurliðsins.

 

,,Flest liðin eru að leika vel á köflum en detta niður þess á milli, þetta hefur verið frekar ójafnt hjá flestum nema FH og Val sem virðast vera einu liðin sem geta haldið dampi,” sagði Kristján. Inntur eftir því hvers vegna það væru elstu leikmenn deildarinnar sem væru fyrirferðamestir og hreinlega bestir í ár svaraði Kristján: ,,Þetta er reynslan, hún fleytir leikmönnum áfram. Leikreyndir leikmenn gera færri mistök en ungir menn en einhvers staðar verða þessir yngri að fá að spila og gera mistökin.”

 

Hvernig Keflavíkurliði má fólk búast við á Laugardalsvelli í kvöld?

,,Ég vona að við verðum agressívir og marksæknir í kvöld, það er nokkuð sem er nauðsynlegt til þess að fá eitthvað út úr leiknum.”

 

Staðan í deildinni

 

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024