Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Nýtur þess betur en nokkru sinni
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 28. ágúst 2021 kl. 07:24

Nýtur þess betur en nokkru sinni

Bretinn Andrew James Pew er öflugur klettur í vörn Þróttar, fyrirliði liðsins og aðstoðarþjálfari. Þótt Andy sé orðinn fertugur nýtur hann þess betur en nokkru sinni að spila fótbolta og er ekkert á þeim buxunum að leggja skóna á hilluna.

Þróttur situr á toppi annarrar deildar karla í knattspyrnu með fjögurra stiga forskot á næsta lið þegar fjórar umferðir eru eftir af Íslandsmótinu. Liðið hefur aðeins tapað tveimur leikjum á tímabilinu, báðum gegn Reynismönnum sem hafa skorað sjö af þeim sautján mörkum sem Þróttur hefur fengið á sig. Víkurfréttir ræddu við Andy um gengi Þróttar á tímabilinu og það sem framundan er.

„Ég er svolítið þreyttur eftir leik gærdagsins en er ánægður með úrslitin [2:0 sigur á Leikni Fáskrúðsfirði]. Tímabilið er búið að vera virkilega gott hjá okkur en við áttum svo sem von á því,“ segir Andy sigurreifur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nú eigið þið fjóra leiki eftir, þar af tvo gegn helstu keppinautunum [KV og Völsungi]. Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að klára mótið?

„Já, þarna eru tveir mjög mikilvægir leikir en við tökum bara einn leik í einu og lítum á hvern leik sem úrslitaleik. Það er mikilvægt að halda sig á jörðinni og horfa ekki of langt fram í tímann, allt of auðvelt að missa fókusinn þannig. Svo við einbeitum okkur að einum leik í einu og vonandi kemur það okkur upp um deild.

Við höfum ágætis forskot [fjögur stig] en eigum eftir að leika við bæði liðin sem eru í sætunum fyrir neðan okkur – og svo eiga þau eftir að leika innbyrðis líka sem gæti komið okkur vel.“

Er í góðri vinnu og hvergi á förum

Andy er á sínu þriðja ári með Þrótturum en hvernig stóð á því að hann endaði upp á Íslandi.

„Ég var að spila í neðri deildunum á Englandi og það var Íslendingur sem kom að fylgjast með mér spila. Selfyssingar höfðu beðið hann að finna miðvörð fyrir sig og hann horfði á mig spila nokkra leiki, síðan ræddi hann við mig og tveimur vikum síðar var ég kominn til Íslands – þetta var árið 2006, það eru komin fimmtán ár síðan. Virðist langur tími þegar maður horfir til baka.“

Andy hefur starfað síðustu þrjú ár hjá Benchmark Genetics í Vogum og segist ánægður þar.

„Ég hef unnið mig upp í stöðu verkstjóra á þessum þremur árum og er einn af þremur slíkum í fyrirtækinu. Satt að segja þá lít ég á það sem mitt aðalstarf í dag, hef tekið það fram yfir fótboltann sem hefur alltaf verið númer eitt hjá mér.

Fyrirtækið hefur reynst mér vel. Þarna er stundað laxeldi á landi og ég hef verið veiðimaður alla ævi, fór og veiddi reglulega á Englandi. Svo þetta er líka eitthvað sem ég hef ástríðu fyrir. Ég hef takmarkaðan tíma núna til að stunda fluguveiðar því vinnudagurinn er langur hjá mér með æfingum og öllu – en ég skelli mér líka af og til í golf,“ segir Andy en hann er líka ágætis kylfingur og var með í kringum níu í forgjöf þegar hann lék reglulega golf áður en hann flutti til Íslands.

Andy á íslenska kærustu og þau búa saman í miðbæ Reykjavíkur. Hann á líka níu ára gamlan son sem býr á Selfossi og Andy reynir að verja eins miklum tíma með honum og mögulegt er og fylgist með honum keppa í fótbolta eins oft og hann getur.

„Ég vil að hann alist upp hér á Íslandi því að mínu viti eru fleiri tækifæri hér fyrir hann. Það er almennt þægilegra fyrir börn að alast upp hér en heima á Englandi, öruggari staður. Sérstaklega miðað við þaðan sem ég kem. Svo ég verð hér alla vega í tíu ár í viðbót, þar til hann verður nógu gamall til að ákveða fyrir sig sjálfur. Kannski flyt ég einhvern tímann aftur til Englands en ég hef engar fyrirætlanir um það eins og er.“

Andy Pew og sonur hans, Henry James Pew, saman á leik Þróttar og KF en Andy var í banni í þeim leik.


Kemur frá Bítlaborginni

Þegar maður ræðir við enskan knattspyrnumann verður maður að spyrja hvaðan hann komi og með hverjum hann haldi í enska boltanum.

„Ég er frá Liverpool,“ segir Andy.

Svo þú ert þá harður stuðningsmaður Everton, er það ekki?

„Jú, ég held með þeim. Ég var með ársmiða á leiki Everton, er blár í gegn og er á góðri leið með að gera son minn líka að Everton-aðdáanda.“

Þarna klikkaði eitthvað upplýsingagjöfin sem blaðamaður hafði fengið frá framkvæmdastjóra Þróttar en hann sagði Andy vera heitan Liverpool-aðdáanda.

„Nei, hann hefur eitthvað verið að fíflast í þér. Ég fyrirlít Liverpool og hann veit það vel,“ segir Andy hlægjandi en hann byrjaði sinn knattspyrnuferil hjá Everton.

„Ég var í unglingaakademíu Everton þangað til ég var sautján ára en þá fór ég til Tranmere Rovers. Síðar fór ég í prufur nokkrum hjá liðum og endaði á að leika í neðri deildum þangað til ég kom til Íslands.“

Hefur æft nóg yfir ævina

En þú ert ekkert að hætta?

„Nei, svo lengi sem skrokkurinn leyfir þá ætla ég að halda áfram að spila fótbolta. Þó að einhver segi mig kannski of gamlan til að spila þá myndi ég sjá eftir því ef ég hætti núna. Af hverju ætti ég að hætta þegar líkaminn er í góðu lagi og leyfir mér að halda áfram? Í sannleika sagt þá nýt ég þess betur núna en nokkru sinni að leika fótbolta.

Auðvitað get ég ekki æft eins mikið og er lengur að jafna mig eftir leiki en Hemmi [Hermann Hreiðarsson, þjálfari Þróttar] er frábær með það að hlífa mér við þátttöku í æfingum liðsins. Ef ég næ einni góðri æfingu á milli leikja og spila nítíu mínútur þá er hann sáttur. Við Hemmi höfum komist að því samkomulagi að gera það sem er best fyrir líkama minn – ef ég er ferskur á leikdegi þá eru allir sáttir. Það hefur virkað vel fyrir mig og liðið. Ef ég myndi æfa eins og hinir myndi ég brenna fljótt upp – ég hef æft nóg yfir ævina,“ segir Andy og hlær.

Andy er öflugur skallamaður og bregður sér ósjaldan í sóknina í föstum leikatriðum.


Þróttur Vogum leikur gegn Völsungi á Húsavík klukkan 14:00 í dag en Völsungur er í þriðja sæti deildarinnar og fimm stigum á eftir Þrótti. Þetta er því mikilvægur leikur í toppbaráttunni.