Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Nýtt bardagahús opnað í Reykjanesbæ
Taekwondo-fólk sýndi listir sínar og þar svifu sumir mjög hátt. Það kom fram við vígslu aðstöðunnar að hjá deildinni hafa 30 einstaklingar öðlast svarta beltið í gegnum tíðina.
Sunnudagur 12. maí 2019 kl. 14:00

Nýtt bardagahús opnað í Reykjanesbæ

Nýtt bardagahús hefur opnað að Smiðjuvöllum 5 í Reykjanesbæ. Í húsinu eru nú undir sama þaki starfsemi Júdódeildar Njarðvíkur, Taekwondo-deildar Keflavíkur og Hnefaleikafélags Reykjaness. Aðstaðan var formlega opnuð á föstudag að viðstöddu fjölmenni. Fyrr sama dag skoðaði forseti Íslands aðstöðuna sem er öll til fyrirmyndar.

Fjölmennt var við opnum bardagahallarinnar. Hér má sjá gesti í aðstöðu Taekwondo-deildarinnar þar sem iðkendur sitja fremst.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Hugmyndin um sameiginlega bardagahöll hefur verið í gerjun undanfarin ár og mjög margir fundir hafa verið haldnir um málið,“ segir Hafþór Barði Birgisson, íþrótta- og tómstundafulltrúi Reykjanesbæjar, í samtali við Víkurfréttir. Hann segir íþrótta- og tómstundaráð afar ánægt að vera loksins búin að koma til móts við óskir bardagadeildanna. Mikil gróska er í starfinu hjá þeim deildum og félögum sem nú hafa fengið inni í bardagahöllinni. Þannig hefur t.a.m. farið fram Íslandsmót í hnefaleikum í húsnæðinu sem og önnur mót sem deildirnar skipuleggja sjálfar.


Eva Stefánsdóttir, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar, afhendi þeim Ingólfi Þór Tómassyni, formanni Hnefaleikafélags Reykjaness, Helenu Rut Borgarsdóttur, formanni Taekwondo-deildar Keflavíkur, og Karen Rúnarsdóttur, formanni júdódeildar Njarðvíkur, blómvendi í tilefni dagsins. Hér eru þau ásamt Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra í Reykjanesbæ. VF-myndir: Hilmar Bragi.

Íslensk glíma var sýnd við opnun aðstöðu júdódeildar Njarðvíkur.

Vígsla bardagahallarinnar fór fram í þrennu lagi. Athöfnin hófst í aðstöðu júdódeildarinnar þar sem iðkendur sýndu brot af þeim íþróttum sem æfðar eru hjá júdódeildinni. Þaðan var farið í sal hnefaleikafélagsins þar sem Guðjón Vilhelm Sigurðsson rakti sögu Hnefaleikafélags Reykjanesbæjar. Það hefur verið með starfsemi á nokkrum stöðum í bænum og fagnar mjög nýrri æfinga- og keppnisaðstöðu í bardagahöllinni. Þar hefur þegar verið haldið Íslandsmót eins og segir hér að framan. Hnefaleikafólk sýndi viðstöddum eina lotu í Ólympískum hnefaleikum. Vígsluhátíðinni lauk svo í aðstöðu Taekwondo-deildar Keflavíkur þar sem Eva Stefánsdóttir, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar, og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, afhentu þeim Karen Rúnarsdóttur, formanni júdódeildar Njarðvíkur, Helenu Rut Borgarsdóttur, formanni Taekwondo-deildar Keflavíkur, og Ingólfi Þór Tómassyni, formanni Hnefaleikafélags Reykjaness, blómvendi í tilefni dagsins. Þá sýndu iðkendur listir sínar en mikill áhugi er fyrir íþróttinni í Reykjanesbæ. Þar eru nú um 150 manns sem stunda æfingar í Taekwondo en biðlistar hafa verið í að komast á æfingar. Er vonast til þess að með nýju æfingahúsnæði náist að vinna á þeim listum.

Við vígslu á aðstöðu Hnefaleikafélags Reykjaness var boðið upp á sýningu á einni lotu í ólympískum hnefaleikum. Guðjón Vilhelm Sigurðsson er frumkvöðull í hnefaleikum í Reykjanesbæ og á stóran þátt í því að íþróttin skaut rótum í bænum ári áður en ólympískir hnefaleikar voru löglegir á Íslandi.