Nýtt æði í líkamsræktarheiminum
Body Combat er líkamsrækt sem byggir á karate, boxi, thai chi og fleiri sjálfsvarnaríþróttum. Tíminn byrjar á upphitun síðan eru sjálfsvarnaríþróttir settar saman og gerðar í takt við skemmtilega tónlist. Sigríður R. Kristjánsdóttir, eigandi Perlunnar, sagði að Body Combat væri það vinsælasta í dag og það yki styrk, þrek og liðleika auk þess sem fitubrennsla eykst og kólesterólmagn líkamans minnkar. „Les Mills, sem þróaði m.a. Body Pump, sem hefur notið mikilla vinsælda s.l. átta ár, þróaði einnig Body Combat og fleiri kerfi. Allir kennarar sem kenna æfingakerfi Les Mills verða að fara á námskeið þar sem farið er rækilega yfir alla helstu þætti kennslufræði í líkamsrækt, þannig að fólk getur verið öruggt um að allar æfingar eru gerðar hárrétt og réttu álagi beitt á líkamann“, sagði Sigríður.