Nýr þjálfari GS: „Tjöldum ekki til einnar nætur“
Ingi Rúnar Gíslason var fyrir helgi ráðinn golfkennari hjá Golfklúbbi Suðurnesja og mun sjá um barna- og afreksstarf klúbbsins. Um talsverðan feng er að ræða fyrir GS enda hefur Ingi Rúnar mikla reynslu af golfkennslu og náð fínum árangri í því fagi.
„Ég er mjög ánægður með að vera kominn til starfa hjá GS. Þetta er spennandi starf, frábær efniviður og frábærar aðstæður í Leirunni. Ég ræddi við bæði heimamenn og foreldra áður en ég sótti um starfið. Ég er mjög spenntur,“ segir Ingi Rúnar í samtali við Kylfing.is.
Gat milli kynslóða
Nokkur óstöðugleiki hefur verið hjá GS undanfarin þrjú ár með golfkennslu. Þrír kennarar hafa starfað síðustu þrjú ár. Með ráðningunni á Inga vonast Suðurnesjamenn til að ná stöðugleika í barna- og afreksstarfi sínu og jafnframt byggja upp nýja kynslóð af frábærum kylfingum. Margir frábærir kylfingar hafa komið frá GS í gegnum árin og má þar nefna Örn Ævar Hjartarson sem varð Íslandsmeistari í Grafarholti árið 2001.
„Það hafa komið margir frábærir kylfingar frá GS og nauðsynlegt að koma þeim aftur á fullt í golfið. Hjartahnoðið er hafið,“ segir Ingi og hlær. „Örn Ævar, Guðmundur Rúnar og Davíð Jóns eiga nóg eftir og það er mikilvægt að fá þá aftur af stað á fullu til að hjálpa nýrri kynslóð. Það er mikil reynsla sem fylgir þessum köppum sem gæti nýst yngri kylfingum gríðarlega. Það er smá gat milli kynslóða hjá GS en það er eðlilegt. Þetta gerist hjá öllum íþróttafélögum í hvaða íþróttagrein sem er.“
Fyrsta formlega æfing Inga Rúnars hjá GS fer fram á fimmtudag. Hann kveðst vera spenntur fyrir því að byrja starfið hjá GS. „Við erum ekki að tjalda til einnar nætur. Ég er ráðinn út þetta ár en ef það er ánægja hjá báðum aðilum þá munum við halda áfram.“