Nýr markmaður á leiðinni til Grindavíkur
-Malin Reuterwall fékk höfuðhögg í þriðja sinn og ráðlagt að hætta í fótbolta
Telma Ívarsdóttir er komin til Grindavíkur á láni frá Breiðablik, en sænski markmaðurinn Malin Reuterwall fékk höfuðhögg á dögunum og er farin frá Grindavík. Var það þriðja höfuðhöggið sem Malin fær á ferlinum og hafa læknar ráðlagt henni að hætta í fótbolta. Fótbolti.net greinir frá þessu.
Telma er í U19 ára landsliði Íslands en þar sem hún er ennþá á 2. flokksaldri geta Grindvíkingar fengið leikheimild fyrir hana þó að félagaskiptaglugginn sé lokaður.
Þegar félagaskiptaglugginn opnar 15. júlí fá Grindvíkingar brasilíska markvörðinn Viviane Holzel Dominguez, en hún var nýlega valin í brasilíska landsliðið í fyrsta skipti.