Nýr Keflavíkurvöllur vígður í dag
Bið Keflvíkinga eftir nýjum grasvelli er á enda. Í dag, sunnudag, verður fyrsti leikurinn á nýja grasinu leikinn þegar lið Keflavíkur og FH mætast í Pepsi-deild karla. Leikurinn hefst kl. 19:15 og verður sérstök vígsluathöfn í sal Fjölbrautaskóla Suðurnesja kl. 17:00. Þar verða Íslandsmeistarar Keflavíkur árin 1964, 1969, 1971 og 1973 heiðraðir með gullmerki knattspyrnudeildar Keflavíkur.
Í tilefni dagsins verður tendrað upp í grillinu og boðið upp á pyslur og hamborgara.
Síðasta leik þessara liða lauk með sigri FH á dögunum þegar þeir slógu Keflvíkinga út úr bikarkeppninni. Á sunnudaginn kemur í ljós hvort Keflvíkingum tekst að hefna ófaranna á nýjum velli.
Keflavíkurvöllur var vígður 2. júlí árið 1967. Hann þótti bylting fyrir knattspyrnumenn í Keflavík á þeim tíma. Rúmlega 40 árum síðar var völlurinn orðinn barns síns tíma og segja má að endurbæturnar sem gerðar hafa verið á vellinum í dag séu einnig byltingarkenndar.
Vígsluleikurinn var viðureign heimamanna á móti úrvalsliði Reykjavíkur. Það var Sveinn Jónsson bæjarstjóri sem vígði völlinn að viðstöddu miklu fjölmenni. Á þessum tíma varð Keflavík fimmti kaupstaðurinn á landinu til að byggja upp grasvöll en árið 1967 voru 14 kaupstaðir á Íslandi. Þetta var mikil bylting fyrir knattspyrnuunnendur í Bítlabænum og margir glæstir sigrar unnust á þessu grasi í gegnum tíðina.
Keflavíkurvöllur var vígður 2. júlí árið 1967.
Keflavíkurvöllur eins og hann var á föstudaginn. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi
Efstu myndina tók Jón Örvar Arason af Keflavíkurvelli í dag.