Nýr hávaxinn leikmaður í Keflavíkurliðið
Iceland Express lið Keflvíkur, sem missti nýlega stærsta leikmann sinn, hinn unga og efnilega Almar Guðbrandsson til Ísafjarðar, fékk óvænt nýjan leikmann í liðið fyrir leikinn í gær. Hann heitir Urule Igbavboa og er á 23. aldursári og er 207 sm. á hæð. Stuðningsmannahópur Keflavíkur sem stendur á bakvið komu leikmannsins, reyndi mikið að fá Damon Johnson aftur til Keflavíkur en það tókst ekki og því var Urule fenginn til liðsins.
Faðir hans er nígerískur og móðirin þýsk. Hann hefur alla tíð verið í Bandaríkjunum og lék m.a. með Crusaders háskólaliðinu. Urule kom á laugardag til Keflavíkur eftir tæplega sólarhings ferðalög.
Margeir Elentínusson, formaður Körfuknattleiksdeildar sagði að stuðningshópur Keflavíkurliðsins hafi boðið forráðamönnum liðsins leikmanninn og bæri kostnað af honum.
Urule kom inn á í leiknum við Snæfell í gær í þriðja leikhluta og stóð sig vel, skoraði í sinni fyrstu sókn og 7 stig í heildina, tók mörg fráköst og boðar gott fyrir liðið.
Á myndum Páls Orra Pálssonar má sjá Urule í baráttunni gegn Snæfelli í gær.