Nýliðarnir í kennslustund á Keflavíkurvelli
Keflavík hafði í kvöld glæsilegan 3-0 heimasigur gegn nýliðum HK í Landsbankdeild karla í knattspyrnu og eru fyrir vikið komnir í 3. sæti deildarinnar með 7 stig. Þórarinn Kristjánsson kom Keflavík í 1-0 með skallamarki á 28. mínútu en Símun Samuelsen bætti við öðru marki Keflavíkur á 60. mínútu. Guðmundur Steinarsson var ekki í byrjunarliði Keflavíkur í kvöld en kom inn á eftir leikhlé og gerði þriðja og síðasta mark Keflavíkur í leiknum á 74. mínútu.
Þeir Magnús Þorsteinsson, Nicolaj Jörgensen og Kenneth Gustafsson voru allir fjarverandi í Keflavíkurliðinu í kvöld sökum meiðsla og þá var Guðmundur Steinarsson á varamannabekknum í upphafi leiks en frammi í Keflavíkurliðinu voru þeir Þórarinn Kristjánsson og Einar Örn Einarsson.
Leikur kvöldsins fór kröftuglega af stað og voru bæði lið að skapa sér fín færi. Veðrið var loksins bærilegt til knattspyrnuiðkunar þó nokkur vindur hefði verið á vellinum en það var bjart og úrkomulaust.
Jónas Guðni Sævarsson átti fyrsta hættulega færi leiksins er hann skaut í stöng á 26. mínútu og þá var eins og Keflvíkingar kæmust á bragðið og ekki lengi að bíða fyrsta marksins. Aðeins tveimur mínútum eftir stangarskot Jónasar brunaði Símun Samuelsen upp vinstri kantinn, sendi boltann fyrir markið beint á kollinn á Þórarni Kristjánssyni sem afgreiddi knöttinn snyrtilega í netið og staðan 1-0 Keflavík í vil og fyrsta mark sumarsins í hús hjá Þórarni.
Þórarinn var að finna sig vel í framlínu Keflavíkur í kvöld og á 42. mínútu sendi Símun aðra eitraða krossendingu fyrir HK markið og fann Þórarinn öðru sinni sem skaut viðstöðulaust að marki HK en Gunnleifur var vel staðsettur í HK markinu og varði örugglega.
Leikar stóðu því 1-0 Keflavík í vil þegar liðin gengu til hálfleiks. Keflavík gerði eina breytingu á liði sínu í hálfleik þegar Einar Örn Einarsson fór af velli og inn kom Guðmundur Steinarsson.
Gestirnir úr Kópavogi hófu síðari hálfleikinn af miklum krafti og áttu nokkrar hættulegar sóknir. Sú hættulegasta kom á 49. mínútu þegar HK menn sendu boltann inn í teig af hægri kanti þar sem Kristján Ari Halldórsson tók við boltanum og skaut að marki en framhjá og fór þar illa með gott marktækifæri.
Eftir góða byrjun hjá HK fóru heimamenn hægt og bítandi að herða róðurinn og á 60. mínútu átti Branislav Milicevic sendingu fyrir HK markið af vinstri kanti. Boltinn barst til Baldurs Sigurðssonar í miðjum teignum sem framlengdi boltann á Símun og Færeyingurinn flúgandi sendi boltann í netið og staðan 2-0 Keflavík í vil. Símun var sjóðandi heitur í leiknum í kvöld og hefur átt ljómandi gott upphaf með Keflavík í sumar.
Eftir annað mark Keflavíkur tóku heimamenn öll völd á vellinum og hefðu hæglega getað bætt við nokkrum mörkum til viðbótar en þriðja og síðasta Keflavíkurmarkið kom á 74. mínútu. Guðmundur Steinarsson gerði síðasta mark Keflavíkur í kvöld eftir mikinn hamagang við HK markið og þar við sat en 3-0 sigur Keflavíkur var aldrei í hættu.
Ómar Jóhannsson, markvörður Keflvíkinga var kátur í leikslok og sagði það ánægjulegt að hafa haldið hreinu í dag. „Ég fékk góða hjálp en ég hef haft meira að gera og það var mikilvægt að við skyldum ná að skora á undan því HK er mikið stemmningslið,“ sagði Ómar sem þarf að berjast fyrir hverri einustu mínútu í Keflavíkurliðinu því samkeppnin þar á bæ er mikil enda þrír markverðir á mála hjá Keflavíkurliðinu. „Hér er hörku samkeppni um markvarðarstöðuna en mér líður bara vel. Reyndar hefur verið fínt að hafa Bjarka (Guðmundsson) hérna með okkur því ég hef lært helling af honum,“ sagði Ómar.
Guðmundur Viðar Mete er óðum að festa sig aftur inn í miðvarðarstöðuna hjá Keflavík eftir að hafa misst af tveimur fyrstu leikjum liðsins í sumar. „Ég er langt frá mínu besta formi en þetta kemur hægt og rólega. Ég þarf aðeins meiri tíma til að vinna upp þolið og fá styrkleika í mjöðmina. Það voru slit í bakinu og mjöðminni sem voru að angra mig,“ sagði Guðmundur og segist finna töluvert til meiðslanna í leikjum. „Ég þarf að passa mig en þetta fer alveg að koma. Við lékum vel í dag og náðum í þrjú stig og það er það sem skiptir máli. 7 stig af 12 er ásættanlegt en við verðum með mun sterkari hóp þegar leikmennirnir sem eru í meiðslum núna snúa til baka,“ sagði Guðmundur. Daninn Nicolaj Jörgensen meiddist gegn Breiðablik í síðustu umferð og fer í röntgenmyndatöku á morgun á ökkla.
Næsti deildarleikur Keflavíkur er gegn Valsmönnum á Laugardalsvelli þann 7. júní kl. 19:15.
VF-Myndir/ Jón Björn Ólafsson og Hilmar Bragi Bárðarson
Texti: Jón Björn Ólafsson – [email protected]