Íþróttir

Nútímamarkmaður þarf að búa yfir góðri fótatækni
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 21. desember 2023 kl. 06:09

Nútímamarkmaður þarf að búa yfir góðri fótatækni

Ásgeir Orri Magnússon skrifaði nýverið undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Keflavíkur en Ásgeir er ungur og efnilegum markmaður sem stefnir hátt. „Ég skrifaði undir samning til ársins 2026 svo það eru spennandi tímar framundan,“ segir Ásgeir.

Ásgeir gekk upp úr öðrum flokki í haust og það lítur út fyrir að hann verði aðalmarkvörður Keflvíkinga næstu tvö árin. Hvernig líst Ásgeiri á það?

„Það leggst bara vel í mig, eins og ég sagði þá er þetta mjög spennandi verkefni og auðvitað þakka ég Keflavík fyrir traustið sem það sýnir mér.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það er þannig með markmannsstöðuna að henni fylgir töluverð ábyrgð. Það er oftar tekið eftir því þegar við gerum mistök en útileikmennirnir, enda kostar það oftast mark. Svo markmaður þarf að hafa breitt bak.“

Var útileikmaður

Hefur þú alltaf verið í marki?

„Nei, ég byrjaði í marki en í fjórða flokki hætti ég í marki, þegar við fórum á stórt mark. Ég missti áhugann og fór þá að spila sem útileikmaður. Ég spilaði úti í fjögur ár en ákvað svo á öðru ári í öðrum flokki að fara í markið aftur – og þá byrjaði allt að rúlla. Keflavík bauð mér samning og ég var fenginn á reynslu hjá Veneccia á Ítalíu, síðan var ég valinn í landsliðið.“

Þú ert uppalinn Njarðvíkingur.

„Já, ég var í Njarðvík og svo bauð Keflavík mér samning og ég ákvað að fara þangað – en ég er Njarðvíkingur í hjarta.“

Ásgeir Orri fékk að spreyta sig í lok síðasta tímabils og lék síðustu tvo leiki leiktíðarinnar í markinu. Hann stóð sig ágætlega en var kannski fullákafur á köflum.

„Ég spilaði tvo leiki, á móti Fylki og ÍBV. Það var svolítið áhugavert sem gerðist í þeim leikjum, ég gaf tvö víti,“ segir hann og hlær að sjálfum sér. „Maður verður að hafa gaman af þessu. Svo lærir maður bara af mistökunum, það er hluti af því að vera í íþróttum. Ég er bara þannig að þegar ég sé boltann þá sé ég ekkert annað, mig langar bara að ná honum og get þá orðið svolítið aggresívur.

Það var mikilvægt að ég gerði þessi mistök í þessum leikjum, þannig að ég geti lært af þeim. Þetta voru leikir sem skiptu litlu máli og það var ábyggilega ástæðan fyrir því að mér var hent út í djúpu laugina, til að safna í reynslubankann. Þetta voru skemmtilegir leikir.“

„Ég er bara þannig að þegar ég sé boltann þá sé ég ekkert annað, mig langar bara að ná honum og get þá orðið svolítið aggresívur ...“

Finnst þér það hafa hjálpað þér að spila sem útileikmaður?

„Algerlega, staða markmanns í dag gerir þær kröfur að þú getir spilað með fótunum. Að spila sem útileikmaður hefur hjálpað mér gríðarlega með fótatækni. Nútímamarkmaður þarf að búa yfir góðri fótatækni. Eins og Onana [markvörður Manchester United] til dæmis, mjög góður í löppunum. Hann vakti gríðarlega athygli í Meistaradeildinni fyrir sína tækni með fótunum.

Mathias [Rosenorn] sem var í markinu hjá okkur í sumar er annað dæmi um markmann með frábæran fót, með hrikalega langar og hættulegar sendingar fram völlinn.“

Hugurinn leitar í atvinnumennskuna

Hver er stefnan hjá þér? Þú stefnir væntanlega lengra en að spila með Keflavík.

„Stefnan hjá mér núna er bara að sanna mig með Keflavík. Reyna að fá athygli frá erlendum félögum eða mögulega á Íslandi. Auðvitað leitar hugurinn alltaf út í atvinnumennsku, síðan líka U21 og A-landsliðið. Það eru ákveðin markmið.“

Hvað með aðrar íþróttir, hefurðu stundað einhverjar fleiri íþróttir en fótbolta?

„Ég var auðvitað líka í körfu. Var alltaf í körfu og fótbolta þegar ég var yngri en svo sögðu mamma og pabbi að ég þyrfti að velja eina íþrótt þannig að ég valdi fótboltann. Ég var alveg ágætur í körfu en mér fannst fótboltinn bara vera miklu skemmtilegri og ákvað að velja hann.

Bekkjarfélagar mínir áttu erfitt með að skilja það, við vorum bara tveir í bekknum sem æfðum fótbolta. Þetta var bara körfuboltabekkur í Njarðvíkurskóla. Með mér í bekk voru strákar eins og Elías Bjarki [Pálsson] og Robert Sean [Birmingham], það má segja að þetta hafi verið körfuboltakynslóð.“

Ásgeir er að klára síðustu önnina í FS og segir að það líti út fyrir að hann sé að ná öllu.

„Síðan veit ég ekki alveg hvað ég ætla að gera eftir það. Taka mér pásu frá skólanum, fara að vinna og safna mér smá pening. Mig hefur lengi langað að fara í flugumferðarstjórn en það er ekkert stress á mér að byrja í háskóla til að klára það. Ég ætla að leggja áherslu á fótboltann núna. Fótboltinn er númer eitt hjá mér og ef mín markmið þar ganga ekki upp set ég fulla athygli á að mennta mig,“ sagði Ásgeir að lokum.