Íþróttir

Núna er ég bara að hugsa um sund
Guðmundur Leo Rafnsson. Mynd: Facebook-síða sundráðs ÍRB
Sunnudagur 31. desember 2023 kl. 06:09

Núna er ég bara að hugsa um sund

– segir hinn sautján ára gamli sundkappi Guðmundur Leo Rafnsson en árið 2023 gekk framar vonum hjá honum. Guðmundur tók þátt í stórum mótum eins og Smáþjóðaleikunum, Evrópumóti unglinga og Norðurlandamótinu og stóð sig frábærlega á þeim öllum.

Skemmtilegast í einstaklingsíþrótt

Hvað ertu búinn að æfa sund lengi?

„Alveg í góð tólf, þrettán ár. Ég var í smá tíma í körfubolta líka en sundið á betur við mig, mér finnst miklu skemmtilegra að vera í einstaklingsíþrótt.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það er búinn að vera góður stígandi í sundinu hjá Guðmundi og aðspurður um framhaldið segir hann að markmiðið sé að gera enn betur.

Hversu langt geta sundmenn náð?

„Eigum við ekki bara að komast á því á næstunni,“ segir Guðmundur kokhraustur.

Guðmundur hefur tekið þátt í Smáþjóðaleikunum, Evrópumóti unglinga og nú síðast Norðurlandamótinu á þessu ári. Á Smáþjóðaleikunum í byrjun sumars sló hann sex ára gamalt met í 4 x 100 metra fjórsundi karla með karlasveit Íslands og Guðmundur gerði enn betur á Norðurlandamótinu þar sem hann varð Norðurlandameistari í 200 metra baksundi og bætti tíma sinn um tæpa sekúndu þegar hann synti á tímanum 1:57,33. Þá vann hann einnig silfurverðlaun í 100 metra baksundi. Guðmundur var einnig í sveit Íslands sem hafnaði í fimmta sæti í 4 x 200 metra skriðsundi á Norðurlandamótinu.

„Það var frábær tilfinning. Það gekk allt upp hjá mér. Við vorum fjögur á Norðurlandamótinu frá ÍRB; ég, Fannar, Eva og Sunneva. Mjög góður hópur, góðir félagar og góðir sundmenn,“ segir hann.

Hverjar eru þínar sterkustu greinar?

„Það eru 100 og 200 metra baksund og svo er 100 metra skriðsund búið að vera að koma inn núna upp á síðkastið. Þannig að ég held að það séu þessar þrjár greinar sem eru bestar hjá mér en 200 bak er sú sterkasta af þessum sterkustu,“ segir Guðmundur sem hefur þegar sett stefnuna á Ólympíuleikana 2028.

Samkeppnin er skemmtileg

Er ekki mikil samkeppnin innan liðsins þegar þið eruð jafnvel að keppa gegn hvort öðru?

„Jú, við erum oft að keppa saman. Það er það skemmtilega við þetta, að fá að keppa við vini og ýta hverju öðru áfram. Þetta er alltaf á góðu nótunum.“

Guðmundur er á öðru ári í FS og segist vera að skoða ýmsa möguleika með framhaldið hjá sér.

„Ég er að skoða ýmsa valmöguleika, hvort ég fari út í nám eða út að æfa, eða fara út í skóla og æfa. Það er verið að skoða þetta allt en ég er ekki viss ennþá hvað ég ætla að læra. Núna er ég bara að hugsa um sund en ég mun finna út úr þessu.“

Býðst ekki fólki eins og þér ekki styrkur út á sundið?

„Jú, allan daginn. Það er frábært að íþróttamenn geti farið í skóla og fengið það borgað út á íþróttina. Það er örugglega sérstök reynsla að fara þannig út í nám, eitthvað sem maður upplifir ekki tvisvar,“ segir Guðmundur.