Nú liggja Danir í því!
Hnefaleikafélag Reykjaness (HFR) heldur næstkomandi laugardag stórmót gegn úrvalsliði Dana í gömlu sundhöllinni við Framnesveg í Keflavík. Danirnir verða 13 talsins og auk þess verða fjórir alíslenskir bardagar.
HFR teflir fram sterku liði og þar er fremstur í flokki Árni „úr járni" Ísaksson sem mætir Filip Jörgensen, en sá er skráður þriðji besti í millivigt af Danska Hnefaleikasambandinu (DaBu). Árni hefur aldrei slegist í skráðum áhugamannabardaga áður, en hefur keppt í ýmsum öðrum bardagalistum með góðum árangri. Hann æfði til skamms tíma með HFR árið 2002 og margir muna eða hafa heyrt um nær goðsagnakenndan æfingabardaga hans við Skúla Stein Vilbergsson í HF-húsinu fyrir sjö árum síðan. Árni hefur nú snúið sér að hnefaleikum af mikilli alvöru og hefur æft eins og skepna fyrir þetta mót undanfarna þrjá mánuði, tvö til þrjú skipti á dag. Hann hefur verið að velgja sterkum 90 kg mönnum undir uggum í undirbúningnum. Reynt var að fá danska meistarann til að mæta Árna, en ekki reyndist unnt að verða við því í þetta sinn!
Aðrir keppendur HFR eru Ástþór Sindri Baldursson, Andri Már Elvarsson, Hafsteinn Smári Óskarsson, Pétur Ásgeirsson, Björn Snævar Björnsson, Tom Wolbers og systkinin Ásdís Rósa og Gunnar Davíð Gunnarsbörn. Ásdís mætir þriðju bestu hnefaleikakonu dana í léttvigt, Maríu Jacobsen og hafnfirðingurinn knái, Adam Freyr Daðason (HFH), mætir Christian Noya, fimmta besta léttvigtarmanni þeirra.
Keppni hefst kl. 19:00 en húsið opnar 18:30. Aðgangseyrir er 1.000 kr.