Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Nú liggja Danir í því
Fimmtudagur 30. ágúst 2007 kl. 14:05

Nú liggja Danir í því

Hnefaleikafélag Reykjaness mun standa í ströngu annað kvöld þegar vösk úrvalssveit frá Danmörku mætir til leiks í Hnefaleikahöllina í Reykjanesbæ. Fyrirhugað var að Daníel Þórðarson myndi mæta danska veltivigtarmeistaranum Kenneth Nemming en ekkert verður af bardaga þeirra kappa sökum forfalla Daníels. Forsvarsmenn hnefaleikafélagsins munu engu að síður reyna eftir fremsta megni að finna bardagamann gegn hinum reynda Nemming en mikil spenna er engu að síður fyrir öðrum bardögum kvöldsins.

 

Vikar Sigurjónsson verður í aðalbardaga kvöldsins en keppnin hefst á morgun, föstudag, kl. 18:00 í Hnefaleikahöllinni og er hægt að kaupa miða í forsölu í Sportbúð Óskars við Hafnargötu. Guðjón Vilhelm, forsvarsmaður hnefaleikafélagsins, sagði að félagið myndi nú í þessari keppni í fyrsta sinn tefla fram fullmótuðum hnefaleikamönnum á unglingsaldri og segir kappana eiga eftir að láta vel að sér kveða þegar fram líða stundir.

 

Boxarinn Þórður „Doddy“ Sævarsson verður með Dönum í för en hann er þjálfari hjá hópnum. Þórður barðist einmitt við Nemming á Ljósanótt 2003 og hafði þá sigur. Síðan þá hefur Nemming verði óstöðvandi í heimalandi sínu og því allt kapp lagt á að finna honum andstæðing.

 

Aðrir íslenskir keppendur á morgun verða þeir Ágúst Hilmar Dearborn, Viðar Freyr Viðarsson, Davíð Freyr Atlason, Sigurbergur Eiríksson, Hafsteinn Smári Óskarsson, Pétur Ásgeirsson og Andri Már Elfarsson. Andri er einvörðungu 12 ára gamall en þykir mjög efnilegur og mun hann mæta Dion, syni fyrrum heimsmeistara í atvinnuhnefaleikum, Jimmi Bredahl, sem mætti einmitt sjálfum Oscar de la Hoya árið 1994.

 

Von er á skemmtilegri hnefaleikaveislu í Reykjanesbæ annað kvöld og er hægt að fá miða á viðburðinn í Sportbúð Óskars í forsölu á 1000 kr. en miðaverð við dyrnar verður kr. 1500.

 

VF-mynd/ [email protected] Hafsteinn Smári Óskarsson á æfingu í Hnefaleikahöllinni í Reykjanesbæ. Hann ætlar að láta finna duglega fyrir sér annað kvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024