Norðurlandameistari í fimleikum
Keflavíkurmærin Heiðrún Rós Þórðardóttir varð um helgina Norðurlandameistari í fimleikum í blönduðum greinum með liði sínu, Ollerup. Ollerup er fimleikaskóli í Danmörku sem hún stundaði nám við í fyrra sem skiptinemi í hálft ár. Þá varð hún einnig Danmerkurmeistari með liðinu þegar hún var þar við nám. „Það var alltaf markmiðið hjá mér að keppa með liðinu á Norðurlandamótinu,“ segir Heiðrún þegar blaðamaður hafði samband við hana og spurðist fyrir um sigurinn. Til að öðlast þátttökurétt á mótinu þá verður liðið að hafa sigrað keppni í sínu heimalandi og eins og áður segir þá sigraði liðið í hópfimleikum í Danmörku í fyrra. Allir þeir sem hafa keppt fyrir hönd skólans eiga svo kost á því að komast í liðið og Heiðrún fót utan í sérstök úrtökupróf og komst þar með í liðið.
„Það var svo veisla fyrir liðið og sigrinum fagnað vel en þetta var alveg æðislega gaman. Svo var bara farið með fyrstu vél heim um morguninn eftir,“ segir Heiðrún sem er menntaður íþróttafræðingur og starfar á leikskólanum Vesturberg í Reykjanesbæ.
Heiðrún æfir annars með Gerplu í Reykjavík en hana langaði til þess að keppa með Ollerup á þessu móti. Gerpla sigraði einnig sinn flokk á mótinu „Ætli ég verði ekki með Gerplu á næsta Norðurlandamóti,“ segir Heiðrún en hún segir mikinn tíma fara í æfingar en hún er búsett í Reykjanesbæ og ferðast því á milli til æfinga.
Mynd úr einkasafni Heiðrúnar sem er hægra megin á myndinni.