Nokkuð vandræðalaus sigur Keflavíkur
Keflavík sigraði ÍR í Intersport deild karla í körfuknattleik í gær. Lokatölur leiksins voru 86-68 Keflvíkingum í vil.
ÍR-ingar sem léku án Eiríks Önundarsonar byrjuðu leikinn ágætlega í Sláturhúsinu en heimamenn vöknuðu af værum blundi og náðu upp fimm stiga forskoti í 1. leikhluta, 21-16. Keflvíkingar héldu forystunni allt til leiksloka en þeir léku án Arnars Freys Jónssonar sem á við meiðsl í baki að stríða en vonir standa til um að hann jafni sig fljótlega.
Sigur Keflavíkur var nokkuð vandræðalaus en bæði lið voru að spila sterka vörn, Anthony Glover var stigahæstur í liði Keflavíkur með 16 stig en hann reif einnig niður 10 fráköst. Michael Matthews gerði 7 stig, tók 8 fráköst og varði 4 skot. Í liði gestanna var Herbert McCall stigahæstur með 17 stig og 15 fráköst.
Keflavík er í 2. sæti deildarinnar með 8 stig, jafnmörg og Fjölnir og Skallagrímur en ÍR-ingar eru í 10. sæti deildarinnar.
„Þetta var ágætisleikur og tiltölulega öruggur sigur en bæði lið voru að spila góða vörn,“ sagði Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur um leikinn.
Tölfræði leiksins
VF-mynd/ úr safni