Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkurstúlkur tapa gegn Bikarmeisturum Hauka
Fimmtudagur 10. mars 2005 kl. 11:12

Njarðvíkurstúlkur tapa gegn Bikarmeisturum Hauka

Njarðvík tapaði 68-73 fyrir Haukum í Njarðvík í gær. Njarðvíkurstúlkur áttu enga möguleika að komast í úrslit né falla um deild fyrir leikinn í gær.

Þær spiluðu vel gegn bikarmeisturum Hauka og staðan í hálfleik var 34-42 fyrir Haukum. Í þriðja leikhluta náðu þær að saxa forskot Hauka niður í eitt stig, eftir þriðja leikhluta var allt í járnum 58-59. Haukar voru þó sterkari á lokakaflanum og uppskáru sigur 68-73.

Stigahæstar í liði Njarðvíkur var Vera Janjic með 27 stig. Brenda Woudstra var með 23 stig og 12 fráköst. Hin unga og efnilega Ingibjörg Vilbergsdóttir var með 10 stig, hún er aðeins 16 ára gömul.

Hjá Haukum var Ebony Shaw atkvæðamest með 32 stig og Helena Sverrisdóttir var öflug með 22 stig, 15 fráköst, 10 stolna bolta og 7 stoðsendingar.

Njarðvíkurstúlkur komust ekki í úrslitakeppnina í ár en þetta tímabil er mikilvægt í reynslubankann hjá ungu liði Njarðvíkur sem eiga vonandi eftir að koma tvíefldar til leiks næsta tímabil.

Haukastúlkur mæta Grindvíkingum í fjögurra liða úrslitum í næstu viku.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024