Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkurstúlkur sigruðu deildarmeistara Hamars
Mánudagur 21. mars 2011 kl. 21:47

Njarðvíkurstúlkur sigruðu deildarmeistara Hamars

Njarðvík sigraði Hamar í Ljónagryfjunni í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Iceland Express deildar kvenna í kvöld 86-78 og er þá staðan í rimmunni jöfn 1-1. Njarðvíkurstúlkur áttu frábæran leik, bæði varnarlega og sóknarlega og var Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari stúlknanna hæst ánægður með stelpurnar.

Þær grænklæddu byrjuðu leikinn af krafti og náðu tökum á leiknum strax í byrjun. Hamarsstúlkur voru þó alltaf á hælum heimamanna og spennan svakaleg. Staðan eftir fyrsta fjórðung var 26-23 og Njarðvíkurstúlkur með frábæra vörn.

Hamar tók sig taki í öðrum leikhluta og komust einu stigi yfir. Stúlkurnar úr Njarðvíkinni létu það ekki vara lengi og náðu góðri forystu aftur. Njarðvík leiddi leikinn í hálfleik með fimm stigum, 47-42.

Þriðji leikhlutinn var sá besti hjá Njarðvík en þar var vörnin sem best. Þær héldu Hamar stigalausum í nokkurn tíma og juku forskotið vel. Njarðvíkurstúlkurnar skoruðu 23 stig í leikhlutanum á meðan Hamar skoraði aðeins 13 stig. Staðan fyrir seinasta fjórðunginn var 69-55.

Í seinasta fjórðunginum var svolítið basl á heimamönnum. Þær voru ekki að hitta úr skotunum og var hann þeirra slakasti. Þá fékk Julia Demirer högg í andlitið og þurftu að fara af velli með skurð hjá auganu. Það sló þær ekki útaf laginu og lönduðu þær góðum sigri á sitjandi deildarmeisturum Hamars, 86-78 og þar með jafnt í einvíginu 1-1.

Næsti leikur liðanna fer fram á fimmtudaginn í blómabænum Hveragerði og hefst sá leikur á slaginu 19:15.

Stigahæst í liði Njarðvíkur var Julia Demirer með 32 stig og 15 fráköst. Henni á eftir komu Shyla Fields með 25 stig, Ína María Einarsdóttir með 11 stig, Dita Liepkaine með 8 stig, 14 fráköst og 8 stoðsendingar og Ólöf Pálsdóttir með 4 stig.
Stigahæst í liði Hamars var Jaleesa Butler með 36 stig og 8 fráköst.

Fleiri myndir frá leiknum má sjá á ljósmyndavef Víkurfrétta með því að smella hér.

Nánari viðtöl og svipmyndir frá leiknum síðar.

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024