Njarðvíkurstúlkur sigra í fyrsta leik
Njarðvíkurstúlkur unnu góðan sigur á KRb, 67-66, í fyrstu deild kvenna í körfuknattleik í kvöld. Þetta var fyrsti keppnisleikur liðsins eftir að meistaraflokkur var lagður niður fyrir um tveimur árum.
Njarðvíkingar voru undir mestallan leikinn og var staðan í hálfleik 30-32 fyrir gestina. í síðasta leikhluta virtist sem leikurinn væri úti fyrir þær, því KR hafði náð 11 stiga forskoti, með mikilli seiglu og grimmri vörn náðu þær hins vegar að koma sér aftur inn í leikinn og var það Anna María Ævarsdóttir sem gerði síðustu tvö stig leiksins af vítalínunni þegar um hálf mínúta var til leiksloka.
Stigahæstar Njarðvíkinga voru fyrirliðinn Sigurlaug Guðmundsdóttir og Dagmar Traustadóttir sem gerðu hvor fyrir sig 17 stig.
VF-myndir/Þorgils- 1: Anna María tryggði sigurinn af vítalínunni, 2: Hart barist á lokasprettinum.