Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkurstúlkur komnar í undanúrslit
Mánudagur 14. mars 2011 kl. 21:37

Njarðvíkurstúlkur komnar í undanúrslit

„Frábær vörn, frábær sókn og stelpurnar lögðu sig allar fram,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Njarðvíkur eftir sigurinn í kvöld gegn Haukum í Iceland Express deild kvenna. Njarðvíkurstúlkur tryggðu sér miða í undanúrslitin en lokatölur í Ljónagrifjunni voru 83-55 og var Sverrir heldur betur ánægður í lok leiks. „Ég held ég hafi verið búinn að nota tólf menn í fyrri hálfleik og fékk gott framlag frá öllum stelpunum.“

Njarðvíkurstúlkurnar byrjuðu vel og héldu góðum sóknarleik og varnarleik út í 40 mínútur. Þær juku muninn hægt og rólega og stjórnuðu leiknum frá fyrstu mínútu. Fjölmennt var í húsinu og voru áhorfendur virkir í stúkunni.

„Það eru erfiðir leikir sem bíða okkar í næstu umferð og þurfum við strax að fara undirbúa þá.“ Sverrir sagði að það væri gaman að fá nágrannaslag í næstu umferð. „En ég hugsa frekar lengra. Það væri skemmtilegra að fá nágrannaslaginn í úrslitum, en við byrjum á næstu umferð og leggjum allt í hana,“ sagði Sverrir Þór, aðspurður hvort ekki væri gaman að fá Keflavík í næstu umferð.

Atkvæðamestar í liði Njarðvíkur í kvöld voru Shayla Fields með 24 stig, Julia Demirer með 16 stig, Ólöf Helga Pálsdóttir með 10 stig, Eyrún Líf Sigurðardóttir með 9 stig og Dita Liepkaine með 8 stig og 15 fráköst. Stigahæst í liði Hauka var Ragna Margrét Brynjarsdóttir með 11 stig

Fleiri myndir frá leiknum má sjá á ljósmyndavef Víkurfrétta með því að smella hér.

VF-Myndir: Siggi Jóns


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024