Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkursigur í spennuleik
Miðvikudagur 15. desember 2004 kl. 23:02

Njarðvíkursigur í spennuleik

Það skiptust svo sannarlega á skin og skúrir þegar Njarðvík sigraði Hauka, 69-67, í 1. deild kvennakörfunnar í kvöld. Á tíma leit út fyrir að Haukar myndu fara með auðveldan sigur af hólmi en Ljónynjurnar neituðu að játa sig sigraðar.

Njarðvíkurstúlkur skoruðu fyrstu tvö stig leiksins en svo tóku Haukar öll völd á vellinum og náðu 20 stiga forskoti eftir 1. leikhluta, 13-33. Vörn Hauka var feikilega sterk og heimamenn að hitta illa úr skotum sínum ásamt því að vera að taka erfið skot.

Í öðrum leikhluta náðu Njarðvíkingar að saxa á forskot Hauka og héldu liðin til hálfleiks í stöðunni 37-46.

3-2 svæðisvörn Njarðvíkur reyndist Haukum erfið í seinnihálfleik og að þriðja leikhluta loknum var munurinn kominn niður í sjö stig, 53-60.

Fjórði leikhluti var svo gríðarlega spennandi þar sem ekkert virtist ganga upp hjá Haukum og þegar tæpar fimm mínútur voru til leiksloka var staðan 62-67 Haukum í vil. Þá hurfu heilladísirnar Haukum og Njarðvíkurstúlkur gerðu síðustu sjö stig leiksins og fóru því með mikilvægan sigur af hólmi, 69-67.

Vera Janjic átti góðan dag í liði Njarðvíkur en hún gerði 26 stig og stal 8 boltum. Stalla hennar Jamie Woudstra stóð sig einnig vel og gerði 21 stig, tók 16 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Helga Jónasdóttir var dugleg undir körfunni en hún tók 15 fráköst.
Helena Sverrisdóttir var Haukum að venju drjúg en hún gerði 22 stig í leiknum.

Jón Júlíus Árnason, þjálfari Njarðvíkur var sáttur í leikslok. ,,Þetta var mikilvægur sigur og mikilvægt að Haukar færu ekki sex stigum framúr okkur. Við lítum þannig á málin að hér sé komið lið sem gefur öðrum liðum ekkert eftir, við ætlum okkur ofar í töfluna en gerum það bara skref fyrir skref," sagði Jón.

Tölfræði leiksins

VF-myndir/ Jón Björn

 

 

 


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024