Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkursigur í spennandi leik
Föstudagur 23. mars 2012 kl. 21:33

Njarðvíkursigur í spennandi leik



Njarðvíkingar tóku forystuna í einvígi sínu gegn Snæfelli í Iceland Express-deild kvenna með naumum sigri á heimavelli í æsispennandi leik. Lokatölur urðu 87-84 en jafnræði var með liðunum nánast allan leikinn.

Snæfellingar komust í 0-4 og Njarðvíkingar virtust seinir að hlaupa til baka í vörnina. Snæfell komst svo í 4-12 og Njarðvíkurstúlkur virtust hreinlega ekki vaknaðar til lífsins. Shanae Baker-Brice var þeirra líflegust en Snæfellsliðið átti í litlum erfiðleikum með að skora og þær leiddu því lengst af. Eitthvað voru Njarðvíkingar gjafmildir og á fyrstu fimm mínútunum var Snæfell búið að skora 18 stig.

Skotin voru auk þess ekki að detta hjá Njarðvík og of fáir leikmenn fengu að snerta boltann í sóknarleiknum. Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir kom inn af bekknum og setti strax niður eina glæsilega þriggja stiga körfu en Snæfellingar vora ávallt fljótar að svara. Ólöf Helga reyndi hvað hún gat að komast í gang en skot hennar geiguðu, en hún setti aðeins niður eitt af 10 skotum sínum utan af velli í hálfleiknum. Njarðvíkingar áttu í mestu vandræðum með Kieraah Marlow í teignum og Snæfellingar nýttu sér vel líkamlega yfirburði sína. Snæfell leiddi með 9 stigum þegar að fyrsta leikhluta lauk, 18-27.

Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Njarðvíkinga ákvað að skipta yfir í svæðisvörn í öðrum leikhluta og strax kom meiri kraftur í leik Njarðvíkinga. Þegar tæpar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum þá tók Ingi Þór þjálfari Snæfells leikhlé því Njarðvík átti frábæran sprett og minnkaði muninn í eitt stig, 30-31. Baker-Brice ógnaði sífellt með hraða sínum og hún kom Njarðvíkingum yfir í fyrsta sinn 32-31. Lele Hardy var ekki síðri og hún hitti vel úr langskotum sínum. Á þessum kafla skiptust liðin á að skora og boðið var upp á sannkallaða skotsýningu. Áfram var jafnræði með liðunum og Lele Hardy kom Njarðvík yfir með lokaskotinu í fyrri hálfleik þegar flautan gall, 47-46.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Atkvæðamestar í hálfleik hjá Njarðvík var Lele Hardy með 20 stig og 7 fráköst. Baker-Brice var með 14 stig og 5 fráköst. Ingibjörg Elva var með 6 stig og hún spilaði flotta vörn og barðist vel, sem og Ólöf Helga. Hjá Snæfell var Kieraah Marlow með 17 stig.

Njarðvík tók yfirhöndina í upphafi síðari hálfleiks og voru þær skrefinu á undan lengi vel. Þegar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta þá var munurinn fimm stig, Njarðvík í vil. Ingibjörg Elva smellti þá niður einum þrist til viðbótar og kveikti í kofanum. Erna Hákonardóttir gerði slíkt hið sama í næstu sókn og útlitið gott hjá Njarðvíkingum. Munurinn var sex stig þegar haldið var inn í lokaleikhlutann og leikurinn búinn að vera hin mesta skemmtun fram að þessu. Lele Hardy lenti illa og mátti sjá áhyggjusvipinn úr andlitum þjálfarateymis Njarðvíkinga þegar hún var borin af velli. Staðan var svo 75-72 Njarðvíkingum í vil þegar sex mínútur voru eftir af leiknum.

Kieraah Marlow minnkaði muninn í eitt stig skömmu síðar en hún var þegar hér var komið við sögu, komin með 31 stig. Petrúnella Skúladóttir skoraði sín fyrstu og einu stig þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir. Eitt stig skildi liðin að þegar að leikhlé var tekið og þrjár mínútur eftir á klukkunni. Njarðvík leiddi með fimm stigum eftir að Lele Hardy setti niður tvö vítaskot en þá voru einungis 1:30 eftir af leiknum. Marlow setti sín tvö víti niður hinum megin og munurinn þrjú stig. Ingibjörg Elva jók muninn aftur í fimm stig fyrir Njarðvík. Snæfell skoraði svo tvær körfur í röð og munurinn eitt stig. Þegar 17 sekúndur voru eftir af leiknum fór Baker-Brice á línuna fyrir Njarðvík. Hún misnotaði fyrra skot sitt en það seinna rataði heim og munurinn var því tvö stig og Snæfell átti boltann. Nú þurfti vörnin að halda hjá Njarðvík.

Snæfellingar fengu tvívegis færi til þess að jafna en bæði skotin geiguðu. Lele Hardy hirti enn eitt frákastið þegar að 6 sekúndur voru eftir og umsvifalaust var brotið á henni. Hún skoraði úr öðru vítaskotinu og tryggði þar sigur heimamanna því Snæfellingum tókst ekki að skora úr þriggja stiga skoti þegar að leiktíminn rann út.

Sagt í lokin:

Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir: „Þetta er allt að koma og formið er að komast í lag. Það er bara gaman að vera komin aftur, og æðislegt að vera í úrslitakeppninni. Þetta verður efitt og við þurfum að hafa vel fyrir þessu eins og sást í þessum leik,“ sagði Ingibjörg en leikurinn var æsispennandi. „Við þurfum að stíga vel út og spila góða vörn, þetta hefst allt með henni,“ sagði Ingibjörg svo að lokum.

Sverrir Þór Sverrisson: „Vörnin var slöpp í byrjun leiks og það tók okkur tíma að komast inn í þetta. Þetta var bara ekki nógu gott í byrjun en við rifum okkur upp og fengum m.a. gott framlag frá bekknum. Svo var þetta bara baraátta eins og við mátti búast og sem betur fer féll þetta okkar megin í dag. Við vitum það þó sem erum í þessum brans að staðan er bara 1-0 og leikur nú þurfum við bara að skoða það sem var gott og slæmt úr þessum leik og bæta okkur fyrir næsta leik á sunnudaginn. Næsti leikur verður ennþá erfiðari og við þurfum að spila mun betur en þetta til þess að vinna í Hólminum,“ sagði Sverrir þjálfari Njarðvíkinga.

Stigin:

Njarðvík: Lele Hardy 32/14 fráköst, Shanae Baker-Brice 25/8 fráköst/8 stoðsendingar, Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir 14/5 fráköst, Ólöf Helga Pálsdóttir 7/7 fráköst, Erna Hákonardóttir 3, Harpa Hallgrímsdóttir 2, Salbjörg Sævarsdóttir 2, Petrúnella Skúladóttir 2, Eyrún Líf Sigurðardóttir 0, Ína María Einarsdóttir 0, Sara Dögg Margeirsdóttir 0, Andrea Björt Ólafsdóttir 0.

Snæfell: Kieraah Marlow 35/9 fráköst/5 stoðsendingar, Jordan Lee Murphree 19/10 fráköst/5 stoðsendingar, Hildur Björg Kjartansdóttir 14/8 fráköst, Hildur Sigurdardottir 12/12 fráköst, Ellen Alfa Högnadóttir 2, Alda Leif Jónsdóttir 2/4 fráköst/5 stoðsendingar, Sara Mjöll Magnúsdóttir 0, Rósa Indriðadóttir 0, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 0, Björg Guðrún Einarsdóttir 0, Berglind Gunnarsdóttir 0.