Njarðvikurkaninn farinn – hvað gera Keflvíkingar?
Nýr erlendur leikmaður körfuknattleiksliðs Njarðvikur, Kevin Jolley, sem kom til landsins sl. laugardag er farinn aftur til Portúgal, en þar lék hann. Ekki fékkst leikheimild fyrir kraftframherjann sem átti að styrkja lið UMFN.
Sigurður H. Ólafsson, formaður Körfuknattleiksdeildar UMFN segir í viðtali við karfan.is að þolinmæði þeirra væri á þrotum og líklegast færi leikmaðurinn til síns heima í dag eða á morgun. Hann hefði ekki fengið sig lausan frá liði sínu í Portúgal þar sem hann þurfti að kaupa upp samninginn sem hann var með við liðið. Sigurður sagði að það hefði verið tekin áhætta í þessum málum, að keyra þetta í gegn með hraði en það hefði síðan ekki gengið. Njarðvík myndi þó ekki bera neinn kostnað af þessu brölti.
Sigurður sagði óvíst hvort reynt yrði að fá annan leikmann en liðið væri mannfátt og því væri aldrei að vita hvað gerðist, ef eitthvað dytti inn á borðið á góðum kjörum.
Víkurfréttir greindu frá áhuga Keflvíkinga á að styrkja lið sitt með tilvitnun í viðtal við stjórnarmann í körfuknattleiksdeildinni sem hefur vakið nokkra athygli en þar sagði hann að það væri þeirra mat að ekki væri nóg að bæta við tveimur leikmönnum til að eiga raunhæfa möguleika á Íslandsmeistaratitlinum. Sigurður Ingimundarson, þjálfari liðsins segir í viðtali við karfan.is að þeir væru ánægðir með hópinn sem þeir hefðu og það væri ekki áhugi til að bæta við leikmanni.
Þeir sem sáu Keflvíkinga tapa fyrir KR í Keflavík sl. föstudag telja að ekki þurfi að fá nema einn sterkan leikmann til liðsins til að góða möguleika á titilvörn. En samkvæmt ummælum Sigurðar er ljóst að málið virðist komið á ís þó svo margir áhagendur liðsins myndu vilja sjá styrkingu þar sem bekkurinn hjá liðinu er ekki að skila miklu um þessar mundir. Það sást best í síðustu tveimur leikjum, síðast í gær á móti ÍR en þar skoraðu bekkjarbræður ekkert stig. Til að eiga möguleika á titilvörn verði að koma framlag frá fleiri leikmönnum en byrjunarliðinu.
Keflvíkingar unnu góðan sigur á ÍR í Seljaskóla í gærkvöldi 81-96. Þröstur Jóhannsson og Hörður Axel Vilhjálmsson skoruðu 21 stig hvor, Jón Norðdal var með 20 stig og 12 fráköst. Sigurður Þorsteinsson var með 19 stig og 17 fráköst og Gunnar Einarsson 15 stig. Sem sagt, fimm leikmenn með öll stig Keflavíkur. Bekkurinn með núll stig.
VF-mynd/pket: Hörður Axel Vilhjálmsson á fleygi ferð með Keflvíkingum. Hann skoraði 21 stig gegn ÍR í gærkvöldi.