Njarðvíkingum kippt niður á jörðina í Vesturbænum
KR 1 - 0 Njarðvík
Njarðvíkingar áttu ekki erindi sem erfiði gegn Íslands- og deildarmeisturum KR í kvöld þegar liðin áttust við í fyrsta leik sínum í DHL höllinni. KR-ingar voru nokkrum númerum of stórir fyrir gestina og lönduðu auðveldum 17 stiga sigri, 79-62.
Stemmningin var rafmögnuð í DHL höllinni og löngu orðið fullt út úr dyrum áður en flautað var til leiks. Stuðningsmenn Njarðvíkur kyrjuðu afmælissöng fyrir Maciej Baginski og öllu sparilegu tjaldað til í tilefni þess að undanúrslitaserían væri að byrja. Svona á stemmningin að vera!
KR-ingar byrjuðu ögn betur og komust í 8-3 áður en Njarðvíkingar herrtu á varnarleiknum eins og þeir svo sannarlega gerðu í einvígi sínu við Stjörnuna. Logi Gunnarsson setti niður tvær þriggja stiga körfur sem að komu gestunum yfir 21-22 og Njarðvíkingar ætluðu greinilega að selja sig dýrt þetta kvöldið. Michael Craion, leikmaður KR fékk að vinna fyrir hlutunum en þrátt fyrir margar góðar varnarlotur Njarðvíkinga gegn honum reyndist hann erfiður ljár í þúfu og átti Mirko Virijevic eftir að koma sér í villuvandræði áður en hálfleikurinn var allur.
KR-ingar buðu uppá ótrúlega skotnýtingu í fyrri hálfelik fyrir utan þriggja stiga línuna og hittu úr 8 af 10 skotum sínum frá fyrirheitna landinu sem að kveikti i liðinu og fljótlega fóru Njarðvíkingar að eiga erfitt með að klára sóknir sínar. Eftir að hafa leitt 22-33 kom hreint magnaður KR kafli þar sem að þeir skoruðu 28 stig gegn 3 gestanna og fóru inn í hálfleik með 14 stiga forskot, 50-36.
KR-ingar héldu sama dampi áfram í 3. leikhluta og hreinlega lokuðu á allar sóknaraðgerðir Njarðvíkinga sem að fundu sig í tómum vandræðum hvað eftir annað. Stefan Bonneu sem var rúmlega 35 stig að meðaltali í leik fyrir leikinn, var ekki kominn með nema 11 stig fyrir lok leikhlutans og morgunljóst að KR-ingar höfðu unnið heimavinnuna sína. Njarðvíkingar töpuðu leikhlutanum 8-16 og útlitið orðið ansi svart.
Bilið milli liðanna jókst lítillega í síðasta fjórðungnum og um miðbik leikhlutans munaði 25 stigum á liðunum og tíminn til upprisu-aðgerða Njarðvíkinga orðinn ansi knappur. Craion sótti sóknarfráköst eins og honum hentaði og skotin ekki að detta fyrir gestina. Þegar 4 mínútur lifðu leiks rúlluðu minni spámenn liðanna inná parketið og ljóst að liðin höfðu sæst á það sem komið var. Lokatölur urðu 79-62.
Njarðvíkingar voru einfaldlega yfirspilaðir og illa til hafðir í Vesturbænum og þurfa Friðrik Ingi Rúnarsson og Teitur Örlygsson að finna leiðir til að snúa taflinu við þegar liðin mætast öðru sinni n.k. fimmtudagskvöld í Ljónagryfjunni.
Stigahæstur hjá Njarðvík var Logi Gunnarsson með 17 stig og honum næstur kom Stefan Bonneau, sem átti ótrúlega erfitt uppdráttar í kvöld og skilaði aðeins 11 stigum.
Michael Craion átti skínandi leik fyrir KR og skoraði 20 stig og þá skilaði Helgi Már Magnússon 17 stigum.