Njarðvíkingar völtuðu yfir Blika í seinni hálfleik
Njarðvíkingar unnu stórsigur á Breiðabliki í Subway-deild karla í körfuknattleik í Ljónagryfjunni í gærkvöld. Heimamenn stungu af í seinni hálfleik, rufu hundrað stiga múrinn í þriðja leikhluta og unnu að lokum með 40 stiga mun. Grindvíkingar töpuðu aftur á móti mikilvægum stigum á Sauðárkróki þegar Tindastóll vann þrettán stiga sigur en Grindavík er sem stendur í áttunda sæti og síðasta lið inn í úrslitakeppnina.
Njarðvík - Breiðablik 135:95
(29:30, 38:27, 36:22, 32:16)
Eftir tiltölulega jafnan fyrri hálfleik skildu Njarðvíkingar gestina eftir í rykinu, ef svo má segja, í seinni hálfleik. Leikinn var hraður sóknarleikur og væri ekki sanngjarnt að tala um mikinn varnarleik.
Heimamenn leiddu með tíu stigum í hálfleik (67:57) en körfunum hreinlega rigndi í þriðja og fjórða leikhluta þegar Njarðvík skoraði 68 stig gegn einungis 38 stigum Blikanna.
Jose Ignacio Martin Monzon var stigahæstur með 31 stig en allir leikmenn Njarðvíkur komust á blað.
Njarðvík er í næstefsta sæti deildarinnar en Valur vermir toppinn sem stendur. Keflavík getur komist í efsta sæti með sigri á Þór Þorlákshöfn í kvöld en gangi það eftir verða Keflavík, Njarðvík og Valur jöfn með 26 stig.
Njarðvík: Jose Ignacio Martin Monzon 31/7 fráköst, Lisandro Rasio 22/5 fráköst, Dedrick Deon Basile 21/5 fráköst/5 stoðsendingar, Mario Matasovic 20/11 fráköst, Nicolas Richotti 9/5 fráköst/8 stoðsendingar, Oddur Rúnar Kristjánsson 8, Elías Bjarki Pálsson 6, Haukur Helgi Pálsson 5/7 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Helgi Jónsson 4/6 fráköst, Logi Gunnarsson 3, Jan Baginski 3, Maciek Stanislav Baginski 3.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, leit við í Ljónagryfjunni í gær og má sjá myndasafn úr leiknum neðst á síðunni.
Tindastóll - Grindavík 95:82
(23:17, 20:15, 23:27, 29:23)
Stólarnir sýndu enga gestrisni og hófu leikinn af miklum krafti, þeir náðu fljótlega yfirhöndinni og höfðu sex stiga forystu í lok fyrsta leikhluta. Tindastóll jók forskotið í ellefu stig í hálfleik (43:32) en Grindvíkingar klóruðu í bakkann og minnkuðu muninn í þrjú stig um miðbik þriðja leikhluta (55:52) en þá tóku heimamenn við sér á ný og höfðu að lokum þrettán stiga sigur (95:82).
Fyrir leik áttu Grindvíkingar möguleika á að ná Tindastóli að stigum en nú er munurinn á milli þeirra orðinn fjögur stig, Tindastóll í því fimmta á meðan Grindavík er í áttunda sæti með fjórtán stig eins og Breiðablik og Stjarnan. Það getur brugðið til beggja vona í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni en Þór Þorlákshöfn er aðeins tveimur stigum á eftir þessum liðum og á leik til góða. Þórsarar hafa unnið síðustju þrjá leiki og eru til alls líklegir.
Grindavík: Damier Erik Pitts 22/4 fráköst/7 stoðsendingar, Kristófer Breki Gylfason 15, Gkay Gaios Skordilis 10/4 fráköst, Valdas Vasylius 8/4 fráköst, Bragi Guðmundsson 8, Zoran Vrkic 7, Ólafur Ólafsson 5/4 fráköst, Magnús Engill Valgeirsson 3/4 fráköst, Arnór Tristan Helgason 2, Hilmir Kristjánsson 2, Hafliði Ottó Róbertsson 0, Hinrik Guðbjartsson 0.