Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar vélvæðast
Þriðjudagur 27. desember 2005 kl. 15:35

Njarðvíkingar vélvæðast

Nú fyrir skömmu festi Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur kaup á skot- og frákastavélum sem notaðar verða við æfingar hjá félaginu. Búnaðurinn er stór og fyrirferðamikill en Einar Árni Jóhannsson, þjálfari meistaraflokks Njarðvíkinga, er sannfærður um ágæti búnaðarins.

„Þetta eru mjög fínar vélar, ég hef komist í tæri við skotvélina í Þorlákshöfn og hún er góð. Frákastavélin er gott tæki og þá sérstaklega fyrir stóru strákana okkar. Sú stutta reynsla sem við höfum af tækjunum er bara mjög góð og gefur góð fyrirheit,” sagði Einar.

Skotvélin, sem ber nafnið „The Gun“ eða „Byssan,“ er búin stóru neti sem umvefur körfuna og neðan við netið er vélbúnaður með byssu sem virkar líkt og tennisskotvél. Leikmaður tekur skot á körfuna og svo sér vélin um að mata leikmanninn og þarf hann aldrei að ná í boltann. Vélin telur fjölda skota og þau skot sem fara ofan í og þannig er hægt að fylgjast vel með skotnýtingarhlutfalli leikmannsins. Bæði er hægt að nota vélina með því að skjóta af sama punktinum eða láta hana mata leikmanninn hringinn í kringum körfuna.

Frákastavélin/tækið er hæðarstillanlegt með tveimur stórum púðum sem staðsettir eru sitt hvoru megin við körfuna. Púðarnir eru varnar- eða sóknarmenn sem leikmaður getur att kappi við í baráttu um frákasti. Undir körfuhringnum er skammtari þar sem boltinn rennur í og þaðan getur leikmaður náð í boltann, komið honum í leik í teignum, skorað körfu og hafist svo handa að nýju.

Búnaðurinn á örugglega eftir að reynast toppliði Njarðvíkinga vel í vetur sem og yngri flokkum félagsins.

VF-myndir: JBÓ: Jeb Ivey æfir sig á skot- og frákastavélunum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024