Njarðvíkingar utan úrslitakeppni
Grátlega nærri því að leggja KR - þrjár umferðir eftir í deildinni
Njarðvíkingar voru með pálmann í höndunum gegn Íslandsmeisturum KR þegar liðin áttust við í Domino’s deild karla á föstudag í Ljónagryfjunni. Leikurinn var æsispennandi en Njarðvíkingar glopruðu boltanum frá sér á lokasekúndum þannig að KR-ingar stálu sigrinum eftir að brotið var á Jóni Arnóri og unnu þeir með einu stigi 80:81.
Njarðvíkingar urðu af dýrmætum stigum en þeir sitja í 9. sæti deildarinnar þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir. Ljóst er að þeir þurfa að hala inn stigum til þess að ná í úrslitakeppnina en þangað komast aðeins átta efstu liðin.
Njarðvíkingar mæta Þórsurum á Akureyri í næstu umferð en leikið verður afar þétt, en leikirnir þrír fara fram á innan við viku.
Þórsarar eru í 8. sæti og því um gríðarlega mikilvægan leik að ræða um síðasta sætið í úrslitakeppni. Næst leika Njarðvíkingar gegn ÍR á heimavelli sínum en Breiðhyltingar hafa verið á siglingu og sitja í 7. sæti. Öll þessi þrjú lið eru með 18 stig þannnig að allt verður undir í þessum leikjum.
Í lokaumferðinni fara Njarðvíkingar svo til Þorlákshafnar og mæta þar fyrrum þjálfara sínum Einari Árna og félögum sem eru í 5. sæti deildarinnar og eru tveimur stigum fyrir ofan Njarðvík.
Eins og sjá má hér að neðan er pakkinn þéttur þannig að ýmislegt getur gerst á lokasprettinum.