Njarðvíkingar tryggðu sér oddaleik
105-90 sannfærandi sigur í Ljónagryfjunni
Njarðvíkigar unnu nokkuð sannfærandi 105-90 heimasigur gegn Snæfelli í Domino's deild karla í körfubolta. Njarðvíkingar fengu framlag frá mörgum leikmönnum í leiknum en mestu munaði líklega um stórleik Nigel Moore en hann var skoraði 30 stig og reif niður 13 fráköst. Njarðvíkingar horfa nú fram á oddaleik á Stykkishólmi en þar hefur þeim grænklæddu reynst erfitt að næla í sigur í gegnum tíðina.
Njarðvíkingar mættu ákveðnir til leiks eftir kynningu af dýrari gerðinni og náðu fljótlega 9-2 forystu. Þeir settu svo í fluggírinn og staðan var 16-4 fyrir heimamenn þegar fyrsti leikhluti var tæplega hálfnaður. Þegar fyrsta leikhluta lauk loks þá var staðan 29-19, heimamönnum í vil. Njarðvíkingurinn Nigel Moore var þá þegar búinn að skora rúmlega helmingi fleiri stig en hann gerði í öllum leiknum á Stykkishólmi, eða 13 talsins.
Snæfellingar voru aldeilis ekki af baki dottnir þó Njarðvíkingar hafi byrjað með látum. Þeir náðu að saxa á forskotið og leikurinn jafnaðist nokkuð þegar á leið fyrri hálfleik. Elvar Már Friðriksson fékk sína þriðju villu í öðrum leikhluta og hvíldi því í nokkurn tíma. Snæfellingar voru einnig í villuvandræðum en Nonni Mæju fékk sína fjórðu villu þegar rúmlega tvær mínútur lifðu af fyrri hálfleik.
Njarðvíkingar leiddu með 9 stigum þegar gengið var til búningsklefa, 54-45. Erlendu leikmennirnir Nigel Moore og Marcus Van voru að skila sínu fyrir heimamenn en Nigel Moore var með 20 stig og 6 stig. Marcus Van var með 10 stig og 7 fráköst en þeir Elvar Már og Ólafur Helgi voru skammt undan með 8 og 7 stig.
Áfram hélt fjörið í síðari hálfleik og þegar þriðji leikhluti var tæplega hálfnaður var staðan 64-52. Elvar Már lét til sín taka en sem fyrr var það Nigel Moore sem bar af í Njarðvíkurliðinu. Þegar síðasti leikhlutinn var aðeins eftir voru heimamenn með leikinn í höndum sér enda staðan 75-62 þeim í vil. Nú var bara spurning um að halda þetta út og tryggja oddaleik í Stykkishólmi.
Annar ungur leikstjórnandi í Njarðvíkurliðinum, Óli Ragnar Alexandersson kom sprækur inn í leikinn undir lokinn og skoraði 6 stig í röð, en alls skoraði kappinn 11 stig í leiknum. Njarðvíkingar bættu í og Snæfellingar kofnuðu niður þegar leið á leikhlutann. Snæfellingar náðu ágætis áhlaupi þegar rúmlega tvær mínútur voru eftir leiks en það dugði ekki til. Verðaskuldaður 105-90 sigur hjá Njarðvíkingum sem leiddu allan leikinn.
Njarðvík-Snæfell 105-90 (30-19, 24-26, 21-17, 30-28)
Njarðvík: Nigel Moore 30/13 fráköst, Elvar Már Friðriksson 20/5 stoðsendingar, Marcus Van 13/11 fráköst, Óli Ragnar Alexandersson 11, Ólafur Helgi Jónsson 10/6 fráköst, Ágúst Orrason 8, Maciej Stanislav Baginski 7, Hjörtur Hrafn Einarsson 5, Brynjar Þór Guðnason 1, Kristján Rúnar Sigurðsson 0, Friðrik E. Stefánsson 0, Oddur Birnir Pétursson 0.
Snæfell: Jay Threatt 19/6 fráköst/8 stoðsendingar, Ryan Amaroso 15/10 fráköst, Sigurður Á. Þorvaldsson 13, Jón Ólafur Jónsson 12, Hafþór Ingi Gunnarsson 11, Sveinn Arnar Davíðsson 7, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 7/5 fráköst, Stefán Karel Torfason 2, Þorbergur Helgi Sæþórsson 2, Ólafur Torfason 2, Kristinn Einar Guðmundsson 0, Jóhann Kristófer Sævarsson 0.
Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson, Jon Gudmundsson, Davíð Tómas Tómasson