Njarðvíkingar töpuðu heima
Njarðvíkingar máttu sætta sig við ósigur í gær þegar þeir mættu Hamarsmönnum í 2. deildinni í knattspyrnu. Hamarsmenn skoruðu strax á annari mínútu og settu tóninn fyrir það sem koma skyldi. Njarðvíkingar pressuðu stíft eftir þetta og nokkrar hættulegar sóknir fylgdu í kjölfarið.
Það var svo á 15. mínútu sem að Kristinn Björnsson skoraði beint úr aukaspyrnu annan leikinn í röð. Glæsilega gert hjá Kristni. Eftir þetta tóku Njarðvíkingar yfirráðin í leiknum og Andri Fannar Freysson skoraði á 30. mínútu eftir laglegan undirbúning hjá Ólafi Jóni Jónssyni en þetta var fjórða mark Andra í deildinni í sumar.
Gestirnir jöfnuðu skömmu fyrir leikhlé eftir varnarmistök hjá Njarðvíkingum í hornspyrnu. Boltanum var rennt út á óvaldaðan mann sem hamraði knöttinn í samskeytin og staðan orðin 2-2 í fjörugum fyrri hálfleik. Síðari hálfleikur var ekki alveg jafn líflegur. Á 60. mínútu komust Hamarsmenn yfir en Njarðvík fékk færi á að jafna úr vítaspyrnu skömmu síðar. Brotið var á Andra Fannari og Ólafur Jón Jónsson fór á punktinn. Markvörður Hamars varði vítið vel en hann átti eftir að reynast Njarðvíkingum erfiður það sem eftir lifði leiks og ekki tókst þeim grænu að koma knettinum framhjá honum og lokatölur því 2-3 fyrir Hamar.