Njarðvíkingar töpuðu fyrir norðan
Stólarnir sterkari undir lokin
Njarðvíkingar fóru að taugum fyrir norðan og töpuðu gegn Tindastólsmönnum á lokasprettinum, þegar liðin áttust við í Domino's deild karla í körfubolta. Munurinn varð á endanum níu stig, 88:79 sigur eftir að heimamenn í Stólunum sýndu styrk sinn undir lokin.
Njarðvíkingar byrjuðu leikinn á 0:9 spretti. Stólarnir svöruðu heldur betur hressilega fyrir sig og komust í 14:13 á skömmum tíma. Njarðvíkingar rönkuðu aftur við sér með Loga Gunnars í fararbroddi og höfðu þeir grænu þriggja stiga forystu í hálfleik, 40:43.
Í þriðja leikhluta var jafnræði með liðinum en leiðir skildu undir lokin þar sem Stólarnir skoruðu 28 stig gegn 18 frá gestunum í Njarðvík í síðasta leikhluta. Eftir tapið fyrir norðan eru Njarðvíkingar í sjötta sæti með 20 stig líkt og Þór og Haukar sem eru í næstu sætum fyrir ofan. Stólarnir og Grindavík anda ofan í hálsmálið á Njarðvíkingum í næstu sætum sem gefa sæti í úrslitakeppni.
Þeir Jeremy Atkinson og Logi Gunnarsson voru atkvæðamestir með 21 og 20 stig en aðrir voru ekki að finna sig í sókninni hjá Njarðvík. Haukur Helgi skoraði aðeins 12 stig en framlagið af bekknum var það sama.