Njarðvíkingar taka forystuna á Meistaramótaröðinni í Glímu
-glímufólk í ævintýrum á leið til Reyðarfjarðar
Glímufólk úr Njarðvík lagði land undir fót á dögunum og keyrði austur á Reyðarfjörð á fyrsta hluta Íslandsmeistaramótsins í Glímu. Enterprice bílaleigan sá um að Júdódeildin væri á öruggri og rúmgóðri mótorkerru. Keyrðir voru yfir 1300 kílómetrar á rúmlega sólahring. Ferðin var ekki laus við ævintýri því þegar glímumenn úr Reykjanesbæ voru komnir á Höfn í Hornafirði féllu mörg aurflóð í Berufirði. Í stað þess að gefast upp og snúa við þá ákvað glímufólkið að halda áfram og ef að illa færi myndi það þá sofa í bílnum sem var mjög rúmgóður og bíða veðrið af sér.
Þegar komið var í Berufjörð voru ferðalangarnir stoppaðir af björgunarsveitinni á svæðinu en þegar liðsmenn hennar heyrðu hversu langt glímumenn voru komnir að og að erfitt væri að stöðva ferð þeirra möglunarlaust, bentu þeir hinum ákveðnu Reykjanesbæingum á að mögulega væri Öxi fær. Það gekk eftir og um nóttina var áð í grunnskóla Reyðarfjarðar og keppni hófst á tilsettum tíma.
Erfiðleikar ferðalagsins gleymdust þegar Njarðvíkingarnir mættu á gólfið. Kári Ragúel Víðisson sigraði og Garðar Freyr Bjarkason varð annar bæði í unglingaflokki og -80kg flokki karla og eru því efstir eftir fyrsta mót þessa tímabils.