Njarðvíkingar stóðu sig vel á stærstu fangbragðamótum sem haldin hafa verið á Íslandi
Um helgina fór fram stærsta fangbragðamót í flokki fullorðinna sem haldið hefur verið á Íslandi þegar um 100 fullorðnir keppendur tóku þátt á Mjölnir Open sem haldið var í fimmtánda skipti. Njarðvíkingar sendu sjö keppendur á mótið og stóðu þeir sig allir með mikilli prýði.
Besti árangur Njarðvíkinga kom í hlut Heiðrúnar Fjólu Pálsdóttur sem varð önnur í sínum flokki og með árangrinum vann hún sér inn keppnisrétt í opnum flokki kvenna.
Guðmundur Stefán Gunnarsson rifjaði upp gamla takta og varð þriðji í þungavigtinni en sjáanlegt var að úthaldið er farið að láta undan síga hjá kappanum.
Fjórir Mjölnismeistaratitlar til Njarðvíkinga
Mjölnir Open unglinga fór fram fyrr í mánuðinum og var það hið glæsilegasta þar sem 97 einstaklingar voru skráðir til leiks.
Keppt var í aldurs- og þyngdarflokkum og í opnum flokki drengja og stúlkna fjórtán til sautján ára. Ellefu keppendur tóku þátt fyrir hönd glímudeildar Njarðvíkur og náðu þau frábærum árangri.
Vignir Nói Helgason, Jökull Logi Björgvinsson, Helgi Þór Guðmundsson og Mariam Badawy sigruðu öll sína flokka og hlutu Mjölnismeistaratitil. Sigmundur Þengill Þrastarson, Jóhann Ari Jakobsson og Jóhannes Pálsson hrepptu annað sætið í sínum flokkum og þær Shukran Aljanabi og Heiða Dís Helgadóttir hlutu brons í sínum flokki en Heiða keppti aldursflokki upp fyrir sig.
Í opnum flokki unglinga komst Jóhannes í undanúrslit en tapaði þeirri viðureign en vann viðureignina um þriðja sætið. Mariam Badawy fékk undanþágu til að keppa í opna flokknum en hún er aðeins tólf ára gömul og fislétt. Hún sigraði þrjár viðureignir sama og tvær efstu höfðu gert og varð því að grípa til þess ráðs að telja uppgjafartök sem höfðu borið árangur. Mariam varð undir í þeirri talningu og varð þriðja sem er alveg ótrúlegur árangur.
Njarðvíkingar komu því klifjaðir heim með fjögur gull, þrjú silfur og fjögur brons.
Glímuæði í ReykjanesbæSprenging í glímuíþróttum í ReykjanesbæSvo virðist sem glímuæði hafi gripið um sig í Reykjanesbæ en fjölmargir hafa verið að mæta og prófa hinar ýmsu tegundir af fangbrögðum. Glímudeildin býður upp á kennslu í fjölmörgum glímutegundir, þær helstu sem eru í boði eru glíma, Backhold, júdó, Brazilian Jiu Jitsu og Submission Wrestling. Vinsælasta sportið í dag er án efa Brazilian Jiu Jitsu en svo fylgja aðrar fangbragðategundir fast á eftir. Frábær stemmning er á æfingum og segja nýir iðkendur að það sé eins og að vera innan um sína aðra fjölskyldu að mæta á æfingu hjá glímudeildinni. |
Meðfylgjandi myndasafn sýnir myndir Torfa af æfingu hjá glímudeild Njarðvíkur, einnig er þar að finna myndir frá Mjölnir Open.