Njarðvíkingar stóðu í KR
Njarðvíkingar máttu játa sig sigraða gegn KR í 16 liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu í kvöld. Leikurinn, sem fór fram á Njarðvíkurvelli, endaði 0-1 og skoraði Bjarnólfur Lárusson eina mark leiksins með vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks.
Leikurinn var opinn og spennandi þar sem heimamenn gáfu Vesturbæjarstórveldinu ekkert eftir. Mörg færi voru á báða bóga og áttu liðin m.a. bæði skot í slá. Það er því með fullum sóma sem Njarðvíkingar ljúka keppni í bikarnum þetta árið, en þess má geta að þetta er síðasti bikarleikurinn sem leikinn er á þessum sögufræga velli. Um er að ræða fyrsta grasvöllinn á Suðurnesjum þar sem gullaldarlið Keflavíkur vann marga glæsta sigra. Vallarsvæðið verður notað undir framkvæmdir eftir sumarið.
VF-mynd/Þorgils