Njarðvíkingar snéru KR-inga niður í Ljónagryfjunni
Oddaleikur í Vesturbænum á föstudag!
Njarðvíkingar tryggðu sér í kvöld oddaleik um farseðil í lokaúrslit Íslandsmótsins í körfubolta með yfirburðasigri á KR-ingum í Ljónagryfjunni 97-81. Njarðvíkingar leiddu með 5 stigum í hálfleik, 41-36.
KR-ingar leiddu framan af leik og um miðjan 2. leikhluta voru KR-ingar 8 stigum yfir. Heimamenn réttu þó sinn hlut og náðu að komast 5 stigum yfir áður en hálfleiksflautan gall.
Njarðvíkingar buðu uppá grimman varnarleik í bland við agaðan sóknarleik í síðari hálfleik þar sem að Logi Gunnarsson og Stefan Bonneau keyrðu á KR-vörnina eins og enginn væri morgundagurinn sem að opnaði fyrir aðra leikmenn liðsins. KR-ingar áttu engin svör við leik Njarðvíkinga þrátt fyrir að Finnur Stefánsson, þjálfari KR, hafði reynt skyndihjálp á sitt lið í tvígang með leikhléum. Njarðvíkingar höfðu fundið blóðbragðið og hættu aldrei að þjarma að gestunum sem að höfðu kippt Michael Craion á bekkinn vegna slakrar frammistöðu. Njarðvíkingar gengu nánast frá leiknumí 3. leikhluta sem þeir unnu 35-15. Mest leiddu Njarðvíkingar með 27 stigum og ljóst í hvað stefndi.
4. leikhlutinn var svo formsatriði fyrir agaða Njarðvíkinga að klára. Þeir slepptu aldrei takinu af KR-ingum og þegar 5 mínútur lifðu leiks var ljóst að KR hafði kastað inn handklæðinu þegar minni spámenn fóru að týnast á fjalir Ljónagryfjunnar. Lokatölur 97-81.
Liðsheildin var svo sannarlega í fyrirrúmi hjá Njarðvíkingum í kvöld þar sem að 5 leikmenn skoruðu 12 stig eða meira.
Logi Gunnarsson og Stefan Bonneau fóru fyrir Njarðvíkingum með 20 stig hvor og þeir Maciej Baginski, Mirko Virijevic og Ólafur Helgi Jónsson skoruðu allur 12 stig hver.
Hjá KR var Helgi Már Magnússon atkvæðamestur með 19 stig og Michael Craion skoraði 15.
Það verður því boðið uppá eitt stykki oddaleik í DHL höllinni í Vesturbænum á föstudaginn.
Þá er vert að minnast á frábært framtak Njarðvíkinga sem heiðruðu Gunnlaug Briem, leikmann B liðs Hauka, sem að stjórnaði björgunaraðgerðum þar til sjúkraflutningamenn mættu á vettvang þegar Friðrik Stefánsson, leikmaður B liðs Njarðvíkur og fyrrum leikmaður meistaraflokks félagsins, hneig niður í leik liðanna í fyrradag. Gunnlaugur var heiðraður með blómum og standandi lófaklappi fyrir leikinn í kvöld. Mikill klassi yfir þessu hjá Njarðvíkingum.
Bjarki Viðarsson færir Gunnlaugi Briem blómvönd fyrir hönd körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur fyrir leikinn í kvöld. - mynd: karfan.is