Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar slökktu í vonum Hauka
Föstudagur 4. mars 2005 kl. 14:44

Njarðvíkingar slökktu í vonum Hauka

Njarðvíkingar sigruðu Hauka í gær, 91-89, í Ljónagryfjunni í síðustu umferð Intersport-deildarinnar. Með sigrinum bundu þeir enda á vonir Haukamanna um að komast í úrslitakeppnina. Lið Njarðvíkinga var einvörðungu skipað íslenskum leikmönnum en eins og kunnugt er fengu þeir Matt Saymann og Anthony Lackey reisupassann og léku því ekki með.

Leikurinn hófst með miklum látum þar sem Njarðvíkingar léku 2-3 svæðisvörn og virtist það ganga vel því þeir komust í 9-2. Haukar jöfnuðu sig fljótt og náðu að jafna leikinn í 18-18. Það var svo Friðrik Stefánsson, sem átti góðan leik í gær, sem skoraði loka körfu leikhlutans um leið og flautan gall eftir góða sendingu frá Brenton Birmingham og staðan þá 24-20 Njarðvík í vil.

Haukar reyndust sterkari aðilinn í öðrum leikhluta og að honum loknum var staðan 42-43 fyrir Hauka og Ólafur Aron Ingvason, leikmaður Njarðvíkinga, kominn með 3 villur.

Í þriðja leikhluta voru gestirnir sprækari og höfðu fjögurra stiga forystu að honum loknum, 66-70. Ólafur Aron kom svo sterkur inn fyrir Njarðvíkinga í fjórða leikhluta og skoraði m.a. fyrstu fjögur stig heimamanna. Haukar ætluðu ekki að ljúka tímabilinu á þöglu nótunum og þar fór fremstur í flokki Kristinn Jónasson sem hvað eftir annað hélt Haukum inni í leiknum með ævintýralegum þriggja stiga körfum en hann gerði alls 21 stig í leiknum og þar af voru 5 þristar sem lágu í 6 skottilraunum. Þegar um 30 sekúndur voru til leiksloka var staðan jöfn 89-89 og Haukar voru með boltann, þeir spiluðu út 24 sekúndurnar en náðu ekki að skora, Njarðvíkingar tóku frákastið. Boltinn barst til Guðmundar Jónssonar en hann fann Pál Kristinsson undir körfu gestanna sem sendi Hauka inn í sumarið. Brotið var á Páli um leið og hann skoraði sigurkörfuna, hann tók því víti sem geigaði en Haukar náðu ekki að nýta sér það og tíminn rann út, tveggja stiga Njarðvíkursigur því raunin.

Brenton Birmingham lék á alls oddi í liði Njarðvíkur, skoraði 28 stig, stal 5 boltum og tók 4 fráköst. „Það fannst öllum að þeir þyrftu að gera sitt besta, hlutverk okkar allra varð stærra í leiknum í kvöld þar sem Matt og Lackey voru farnir,“ sagði Brenton en hann sér fram á mjög svo óvenjulega úrslitakeppni í ár. „Það getur allt gerst í ár, það geta allir unnið alla og það er enginn öruggur upp úr fyrstu umferð. Við höfum alla burði til þess að vinna ÍR en eins og ég sagði þá er ekkert öruggt í þessum efnum,“ sagði Brenton að lokum.

Tölfræði leiksins

VF-myndir/ Jón Björn, [email protected]
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024