Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvíkingar slakir gegn Stjörnunni í Höllinni
Laugardagur 16. febrúar 2019 kl. 19:49

Njarðvíkingar slakir gegn Stjörnunni í Höllinni

Bakverðir Njarðvíkinga áttu slæman dag í svekkjandi tapi í Geysisbikarnum

Njarðvíkingar biðu lægri hlut gegn Stjörnunni í bikarúrslitum karla í körfubolta í Laugardalshöll nú síðdegis. Stjarn­an byrjaði betur og eftir að Njarðvík komast yfir 9-6, tóku Garðbæingar völdin og létu aldrei af forystu sinni og höfðu 84-68 sigur. Lykilmenn Njarðvíkinga náðu sér alls ekki á strik í dag og voru Garðbæingar öflugri á öllum sviðum.

Njarðvíkingar héngu þó lengst af inn í leiknum þrátt fyrir slæma hittni og fáar ferðir á vítalínuna. Einar Árni þjálfari Njarðvíkinga lýsti yfir áhyggjum af því eftir leik að Elvar Már kæmist sjaldan á línuna þrátt fyrir að sækja ítrekað á körfuna. Hann sagði þó að meiri gæði í sóknarleik Stjörnunnar hefðu ráðið úrslitum í leiknum í dag. Njarðvíkingar virtust ætla að hleypa spennu í leikinn undir lok þriðja leikhluta en Stjörnumenn slökktu fljótlega í þeim glæðum og gengu á lagið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mario Matasovic var nánast sá eini sem sýndi sitt rétta andlit hjá grænklæddum og hélt þeim á floti lengi vel. Elvar Már var tekinn úr sínu tempói sóknarlega og hitti fyrir vikið úr aðeins 14% skota sinna. Jeb Ivey átti sömuleiðis dapran dag, hitti aðeins úr þremur af tólf skotum sínum en hann og Elvar tóku flest skot grænklæddra í dag.

Stjörnumenn höfðu betur í frákastabaráttunni 45 gegn 35 fráköstum hjá Njarðvík auk þess sem Garðbæingar hittu talvert betur 44% nýting, til samanburðar við 35% hjá Njarðvíkingum.

Stjarnan-Njarðvík 84-68 (23-18, 18-14, 19-25, 24-11)

Njarðvík: Mario Matasovic 19/5 fráköst, Jeb Ivey 12/4 fráköst/5 stoðsendingar, Eric Katenda 11/6 fráköst, Elvar Már Friðriksson 8/8 fráköst/7 stoðsendingar, Logi  Gunnarsson 7, Ólafur Helgi Jónsson 6/4 fráköst, Kristinn Pálsson 3, Maciek Stanislav Baginski 1, Snjólfur Marel Stefánsson 1, Jon Arnor Sverrisson 0, Adam Eiður Ásgeirsson 0, Veigar Páll Alexandersson 0.

Stjarnan: Brandon Rozzell 30, Hlynur Elías Bæringsson 13/14 fráköst, Antti Kanervo 11, Collin Anthony Pryor 9/5 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 8/8 stoðsendingar, Filip Kramer 7/6 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 4/4 fráköst, Magnús B. Guðmundsson 2, Ingimundur Orri Jóhannsson 0, Dúi Þór Jónsson 0, Arnþór Freyr Guðmundsson 0, Ágúst Angantýsson 0.