Njarðvíkingar skoruðu fimm og Brynjar byrjar á jafntefli
Brynjar Björn Gunnarsson stýrði liði Grindavíkur í fyrsta sinn í Lengjudeild karla í knattspyrnu þegar Vestri mætti til Grindavíkur í gær og Njarðvíkingar voru í markaham þegar þeir unnu annan leikinn í röð undir stjórn Gunnars Heiðars Þorvaldssonar.
Grindavík - Vestri 1:1
Það mátti ekki greina mikla breytingu á leik Grindavíkur þótt nýr maður væri kominn undir stýri. Kannski ekki að undra þar sem Brynjar Björn hafði aðeins sólarhring til að setja sig inn í málin eftir að hafa tekið við stjórnartaumunum.
Grindvíkingar léku gegn vindi í fyrri hálfleik og eftir jafna byrjun náðu þeir aðeins að sækja á vörn Vestra sem var þétt fyrir og gaf sig ekki. Annars einkenndist leikurinn af mikilli baráttu á miðjunni án teljandi færa.
Þegar farið var að líða að lokum fyrri hálfleiks fóru fyrirliðinn Óskar Örn Hauksson og Marko Vardic báðir í skallaeinvígi og skullu illa saman. Gera varð hlé á leiknum á meðan þeir fengu aðhlynningu og var leikurinn stopp í sjö, átta mínútur. Báðir stóðu þeir þó upp að lokum, með myndarlegar umbúðir á höfði, og héldu leik áfram.
Skömmu eftir að leikurinn fór aftur í gang notfærðu Vestramenn sér meðvindinn. Þá fékk Benedikt Warén boltann fyrir utan teig Grindvíkinga, Warén fékk tíma til að leggja boltann fyrir sig og lét vaða á markið. Boltinn söng í netið upp í markvinklinum en Aron Dagur Birnuson var ekki langt frá því að koma hönd á boltann. Mark á versta tíma fyrir Grindavík en þegar þarna var komið við sögu var komið fram í uppbótartíma fyrri hálfleiks (45'+3).
Annars átti vörn Grindavíkur fínan leik í gær og Vestramenn voru ekki líklegir til að skora fleiri mörk en sóknir heimamanna voru ómarkvissar og runnu flestar út í sandinn.
Þeim Degi Inga Hammer Gunnarssyni og Símoni Loga Thasapong var skipt inn í sóknina á 68. mínútu og það hafði áhrif. Símon Logi tók frábærlega á móti hárri sendingu inn í teig Vestra. Símon var með tvo menn á sér en tók boltann á kassann og náði snúningi inn í teiginn. Þá tók hann hælspyrnu aftur fyrir sig, inn í pakkann, þar sem Freyr Jónsson var felldur og dæmd vítaspyrna. Óskar Örn skoraði af miklu öryggi úr vítinu og bjargaði með því stigi fyrir Grindavík (74').
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, fylgdist með leiknum og er myndasafn neðst á síðunni.
Þróttur R. - Njarðvík 3:5
Njarðvíkingar byrjuðu leikinn gegn Þrótti með þvílíkri flugeldasýningu en Njarðvíkingar voru komnir í 4:0 eftir háfltíma leik.
Oumar Diouck opnaði markareikninginn strax á 4. mínútu og Rafel Victor tvöfaldaði forystuna á þeirri 13. Gísli Martin Sigurðsson skoraði þriðja markið (26') og skömmu síðar Joao Ananias Jordao Junior þar fjórða (33').
Ótrúlegur viðsnúningur hjá einu liði leikgleði og sjálfstraust farið að skína af Njarðvíkingum á nýjan leik.
Áður en fyrri hálfleik lauk náðu Þróttarar að minnka muninn (40') og staðan því 4:1 í hálfleik.
Eftir frábæra byrjun slökuðu Njarðvíkingar fullmikið á að mati Gunnars Heiðars sem sagði í viðtali við Fóbolta.net eftir leik: „Þetta var svona algjör óþarfi að setja þetta upp í einhvern leik.“
Þróttarar minnkuðu muninn í tvö mörk á 69. mínútu en markaskorarinn Diouck gulltryggði sigurinn með fimmta marki Njarðvíkur (83'). Þróttur skoraði þriðja markið undir lok leiks (88') en góður sigur hjá Njarðvík sem hefur skorað níu mörk í síðustu tveimur leikjum.
Njarðvíkingar sitja ennþá í fallsæti en þeir fara sigurreifir inn í verslunarmannahelgina og vonandi sýna þeir áfram þennan fítonskraft út tímabilið – þá hafa þeir engu að kvíða.
Leiki Grindavíkur og Njarðvíkur má sjá í spilurunum hér að neðan: