Njarðvíkingar sitja á toppnum
Njarðvík hafði sigur á Hamarsmönnum í Hveragerði í gær og vermir topp Subway-deildar karla í körfuknattleik. Á sama tíma lögðu Keflvíkingar Blika í Blue-höllinni og eru þeir í öðru sæti, einum sigri frá nágrönnum sínum. Grindvíkingar máttu þola annað tapið í röð þegar þeir mættu Valsmönnum á Hlíðarenda.
Hamar - Njarðvík 85:109
Mario Matasovic fór fyrir sínum mönnum í Hveragerði í gær þegar Njarðvík lagði Hamar nokkuð örugglega. Matasovic gerði 26 stig í leiknum og þeir Chaz Williams og Þorvaldur Orri Árnason lögðu sitt að mörkum, Williams með 23 stig og Þorvaldur með 21.
Njarðvíkingar náðu ellefu stiga forskoti í fyrsta leikhluta og höfðu yfirhöndina allan leikinn án þess að heimamenn náðu nokkurn tímann að ógna sigri gestanna. Að lokum fóru leikar þannig að Njarðvík vann með 24 stigum, 85:109.
Njarðvíkingar sitja einir á toppi deildarinnar með sjö sigra en Keflavík, Valur og Þór Þorlákshöfn fylgja fast á hæla þeirra með sex sigra. Stjarnan og Álftanes eiga síðasta leik umferðarinnar í kvöld en þau eru bæði með fimm sigra fyrir leikinn.
Keflavík - Breiðablik 100:86
Feðgarnir Pétur Ingvarsson og Sigurður Pétursson tóku á móti fyrrum félögum sínum í Breiðabliki í Blue-höllinni í gær. Fyrirfram voru heimamenn mun sigurstranglegri en Blikar hafa einungis unnið einn leik á tímabilinu.
Keflavík leiddi eftir fyrsta leikhluta með fjórum stigum (25:21) en Blikar snéru vörn í sókn í öðrum leikhluta og höfðu forystu þegar liðin gengu til hálfleik (45:48).
Remy Martin setti tóninn hjá Keflavík í upphafi seinni hálfleiks og jafnaði leikinn með þristi. Eftir það fóru Keflvíkingar að síga fram úr gestunum hægt og bítandi og höfðu náð sex stiga forskoti þegar síðasti leikhluti fór af stað. Í fjórða leikhluta héldu heimamenn áfram að þjarma að Blikum og höfðu fjórtán stiga sigur að lokum (100:86).
Remy Martin var líflegur og gerði 36 stig fyrir Keflavík, næstur honum var Jaka Brodnik með 21 stig og Sigurður Pétursson gerði tólf stig gegn sínum gömlu félögum.
Valur - Grindavík 96:83
Grindvíkingar voru í eltingaleik við Val allan leikinn í gær. Valsmenn komust í 5:0 og leiddu með átta stigum eftir fyrsta leikhluta (27:19). Sami munur hélst í hálfleik (50:42) en Valsmenn tvöfölduðu forskotið í þriðja leikhluta (82:66) og kláruðu leikinn með þrettán stiga sigri (96:33).
Dedrick Basile var stigahæstur hjá Grindavík með 26 stig, næstur honum var Deandre Kane með 24 stig og Daninn Daniel Mortensen með fimmtán. Fyrirliðinn Ólafur Ólafsson gerði tíu stig.