Njarðvíkingar sigursælir í glímu um helgina
-Guðmundur Stefán komst í úrslit og Ingólfur sigraði opna flokkinn
Íslenska landsliðið í glímu keppti um helgina á Hálandaleikunum í Bridge og Allan í Skotlandi. Landsliðið var skipað 12 einstaklingum en frá liði Njarðvíkur voru þeir Gil Fernandes, Guðmundur Stefán Gunnarsson, Gunnar Örn Guðmundsson, Ingólfur Rögnvaldsson og Kári Ragúels Víðisson.
Gunnar og Ingólfur kepptu í unglingaflokki sem og fullorðinsflokki. Báðir gerðu þeir það mjög gott og sigraði Ingólfur -66 kg flokkinn og opna flokkinn, þar sem flestir keppendur voru tugum kílóum þyngri en hann.
Ingólfur fær verðlaun fyrir sína frammistöðu.
Allir keppendanna kepptu svo i fullorðinsflokki en íslensku keppendurnir stóðu sig ótrúlega vel. Flestir unnu viðureignir en aðeins tveir unnu til peningaverðlauna, sem veitt eru fyrir fjögur efstu sætin. Það voru þeir Gunnar Örn, sem varð fjórði í -60 kg flokki karla, og Guðmundur Stefán. Guðmundur keppti við Evrópumeistarann Jack Hale í fyrstu viðureigninni en tapaði henni 3-2. Í næstu viðureign glímdi hann við PJ Wendel, sem varð annar á Evrópumeistaramótinu í apríl, og vann þá viðureign 3-0. Í þriðju viðureign glímdi hann svo við við Frazer Hirsh og sigraði 3-0.
Guðmundur komst svo í undanúrslit þar sem hann glímdi við Matthew Southwell og sigraði hann 3-0. Guðmundur keppti svo við Frazer í úrslitabardaganum, en tapaði þeim bardaga 3-1.