Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Föstudagur 11. október 2002 kl. 20:57

Njarðvíkingar sigruðu Keflavík í háspennuleik

Njarðvík sigraði Keflavík, 83:81, í hörku spennandi leik í Intersport deildinni í kvöld en leikurinn fór fram í Ljónagryfjunni. Staðan í hálfleik var 36:48 Keflvíkingum í hag. Síðari hálfleikur var allan tímann í járnum en það var góður varnaleikur Njarðvíkinga á síðustu mínútunum sem skóp sigur þeirra.Leikurinn byrjaði frekar rólega og svo virtist sem bæði lið væru frekar spennt. Leikmenn beggja liða gerðu sig seka um nokkur mistök í sókn en heimamenn voru þó töluvert sterkari og staðan eftir 1. leikhluta 19:10. Njarðvíkingar héldu áfram að spila stífa vörn á gestina í byrjun 2. leikhluta og höfðu yfir 22:13 þegar Sigurður Ingimundarson þjálfari gestanna tók leikhlé og skipti yfir í 2-3 pressuvörn. Í stöðunni 27:16 kom Sverrir Sverrisson inná fyrir Keflvíkinga með gríðarlega baráttu og á aðeins tveimur mínútum komust gestirnir yfir í leiknum 27:29. Keflvíkingar héldu áfram að pressa út fyrri hálfleikinn og þegar honum lauk var staðan orðin 36:48 Keflvíkingum í hag.

Síðari hálfleikurinn byrjaði vel og svo virtist sem Njarðvíkingar ætluðu að komast strax inn í leikinn aftur. Keflvíkingar héldu þeim þó alltaf töluvert fyrir aftan sig og leiddu 59:64 í lok 3. leikhluta og svo virtist sem þeir ætluðu með öruggan sigur í farteskinu. Svo var þó ekki raunin.

Njarðvíkingar komu dýrvitlausir til leiks í síasta leikhlutanum og spiluðu stífa maður á mann vörn. Leikurinn jafnaðist hægt og bítandi og svo virtist sem Keflvíkingar væru ráðlausir í sókninni, reyndu of mikið að treysta á Damon Johnson og hættu að spila sinn bolta.

Síðustu fimm mínútur leiksins voru æsi spennandi og var leikurinn jafn á nánast öllum tölum. Keflvíkingar leiddu þó mestum þar til rúmlega mínúta var eftir að Páll Kristinsson kom Njarðvíkingum yfir en hann átti mjög góðan leik undir lokin fyrir Njarðvík. Þegar staðan var 83:81 fyrir Njarðvík og um 20 sekúndur eftir létu Keflvíkingar Damon Johnson fá boltann og átti hann að sjá um að jafna leikinn. Klukkan tifaði hægt og bítandi og þegar Damon loks leggur af stað rennur hann til og Njarðvíkingar ná boltanum og sigur þeirra raunin.

Keflvíkingar geta í rauninni sjálfum sér um kennt, þeir höfðu yfirhöndina mest allan leikinn en spiluðu ekki nógu vel úr spilunum. Það verður þó ekki af Njarðvíkingum tekið að þeir spiluðu mjög vel í kvöld og áttu sigurinn skilið.

Bestir í liði heimamanna voru Pete Philo með 29 stig, Páll Kristinsson skoraði 19 stig, Sigurður Einarsson skoraði 11 stig, Ragnar Ragnarsson var með 11 stig og Friðrik Stefánsson 9 stig.

Hjá Keflvíkingum var Damon Johnson stigahæstur með 25 stig, Sverrir Sverrisson var mjög sterkur í vörninni ásamt því að setja 12 stig, Guðjón Skúlason skoraði 10 stig og Falur Harðarson 6 stig.

Maður leiksins: Páll Kristinsson (Var traustur í lokin þegar á þurfti að halda)
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024