Njarðvíkingar sigruðu í Sláturhúsinu
Njarðvíkingar sigruðu Keflvíkinga í Meistarakeppni KKÍ í kvöld. Lokatölur voru 79-105, Njarðvíkingum í vil, en þetta var í fyrsta skipti í langan tíma sem íslenskt lið hefur sigur í Sláturhúsinu.
Liðin voru ansi jöfn framan af leik, en Njarðvík hafði frumkvæðið í fyrsta leikhluta. Þeir leiddu með 2-4 stigum allt þar til að Arnar Freyr Jónsson jafnaði leikinn fyrir Keflavík undir lokin. Egill Jónasson kom Njarðvíkingum þó aftur yfir með því að pota boltanum ofan í körfuna í þann mund er leikflautan gall.
Í öðrum leikhluta var lítið að gang í sóknarleik liðanna, en heimamenn sóttu þó í sig veðrið. Þeir náðu yfirhöndinni og höfðu á tímabili fimm stiga forskot. Njarðvíkingar voru þó aldrei langt undan og var staðan 46-44 fyrir Keflavík.
Keflvíkingar mættu alls ekki til leiks í sinni hálfleik og tóku Njarðvíkingar öll völd og hreinlega völtuðu yfir granna sína. Þeir sýndu enga miskunn þar sem Friðrik Stefánsson, Matt Sayman og Brenton Birmingham fóru á kostum og röðuðu niður stigunum.
Munurinn jókst stiga af stigi og skot Keflvíkinga vildu alls ekki niður. Fyrir lokaleikhlutann var staðan 57-76 en þar náðu Njarðvíkingar mest 29 stiga forskoti áður en yfir lauk.
Sigurður Ingimundason, þjálfari Keflvíkinga, sagði sína menn ekki hafa mætt tilbúna til leiks. "Þegar þú mætir illa stemmdur í leiki gengur ekkert upp. Við lékum hroðalega illa í kvöld!"
Friðrik Stefánsson, miðherji Njarðvíkur, var í skýjunum í leikslok enda hafði hann átt skínandi leik þar sem hann hitti m.a. úr þremur 3ja stiga körfum. Hann þakkaði vini sínum Rafni Jónssyni heitnum fyrir gengið í kvöld og sagði víst að hann hafi vakað yfir þeim. "Ég er að vona að þetta gefi góð fyrirheit fyrir okkur í vetur og ég er viss um að deildin í ár verður skemmtileg og spennandi. Svo var það alls ekki leiðinlegt að verða fyrstir íslenskra liða til að leggja Keflavík heima í langan tíma."
Tölfræði leiksins